Fótbolti

Sýndu ferðalag Söru Bjarkar og félaga til Akureyrar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir á leiðinni upp í flugvélina.
Sara Björk Gunnarsdóttir á leiðinni upp í flugvélina. Mynd/Youtube-síða VfL Wolfsburg

Fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins verður andstæðingur Íslands í kvöld þegar hún og félagar hennar í VfL Wolfsburg mæta Þór/KA í Meistaradeild kvenna.

Leikur Þór/KA og VfL Wolfsburg hefst klukkan 16.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þetta er fyrri leikur liðanna í 32 liða úrslitunum en sá seinni verður spilaður á
AOK leikvanginum í Wolfsburg eftir tvær vikur eða miðvikudaginn 26. september.

Það mun reyna mjög mikið á Þór/KA stelpurnar í kvöld enda að mæta tvöföldum þýskum meisturum sem fóru alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra.

VfL Wolfsburg fylgdi liðinu sínu eftir með myndavél þegar það ferðaðist frá Þýskalandi til Akureyrar.

Þar má sjá þær meðal annars mæta á Braunschweig Wolfsburg flugvöllinn í rútu og fara upp í flugvélina sem flaug með þær beint til Akureyrar.

Sara Björk er að sjálfsögðu áberandi í myndbandinu enda sérstök stund fyrir hana að vera mæta löndum sínum í Meistaradeildinni.

Sara Björk er líka kominn á fullt eftir meiðslin og vonbrigðin með landsliðinu á dögunum. Hún skoraði þannig tvívegis í 11-0 bikarsigri á Hannover 96 um helgina.

Seinna mark Söru Bjarkar kom úr vítaspyrnu en hún klúðraði vítaspyrnu í lok leiksins á móti Tékkum þar sem mark hefði komið íslenska liðinu í umspil um sæti á HM.

Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.