Lífið

Birtir daglega veðurspá og stekkur í fallhlíf 95 ára gamall: „Gagnlegt að hafa einhvern tilgang“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Páll Bergþórsson birtir veðurspá á hverjum degi.
Páll Bergþórsson birtir veðurspá á hverjum degi.

Þrátt fyrir að vera 95 ára gamall er veðurfræðingurinn og fyrrverandi Veðurstofustjórinn Páll Bergþórsson hvergi banginn, en líkt og frægt er orðið fór hann í sitt fyrsta fallhlífarstökk á dögunum. Fjallað verður um þennan merkilega mann í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld.

Þess utan situr hann þó ekki auðum höndum og birtir t.a.m. daglega veðurspá á Facebook síðu sinni tíu daga fram í tímann. Fjölmargir fylgjast með spánni á hverjum morgni, enda á Páll tæplega fimm þúsund vini á miðlinum.

„Eftir að ég var orðinn ekkjumaður, þá var ekki þörf fyrir mig lengur. Ég fylgdist með konunni minni meðan hún var á dvalarheimili, en svo fannst mér ég vera orðinn eitthvað svona umkomulaus og atvinnulaus svo ég tók upp á því að fara að útbúa spár á Fésbókinni og senda þær á hverjum morgni og hef gert það í fimm ár síðan,“ segir Páll.

Auk þess hefur hann undanfarið unnið að umfangsmikilli vísindagrein um þróun veðurfars á jörðinni til næstu aldamóta, sem er vel á veg komin.

„Mér finnst sérstaklega gagnlegt að hafa einhver tilgang, hafa einhver verkefni,“ segir Páll og gantast með að þessu ætli hann allavega að ljúka áður en hann verður 100 ára gamall.

Rætt verður við Pál í Íslandi í dag klukkan 18:55, strax eftir kvöldfréttir. Þar fá áhorfendur einnig að fylgjast með fyrsta fallhlífarstökkinu frá ýmsum sjónarhornum. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.