Fótbolti

María skoraði fyrir Chelsea í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Þórisdóttir.
María Þórisdóttir. Vísir/Getty

María Þórisdóttir var meðal markaskorara Chelsea í dag þegar liðið lagði grunninn að sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta.

Chelsea vann þá 5-0 sigur á bosníska félaginu SFK 2000 í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum keppninnar en leikurin fór fram á Asim Ferhatovic Hase leikvanginum í Sarajevo.

María skoraði þriðja marki Chelsea á 36. mínútu með viðstöðulausu skoti á fjærstönginni eftir flotta sendingu frá Erin Cuthbert.Þetta er fyrsta mark Maríu í Meistaradeildinni en hún er á sínu öðru tímabili með Lundúnaliðinu.

Fyrstu tvö mörk Chelsea-liðsins skoruðu þær Drew Spence og Millie Bright. Chelsea er í frábærum málum fyrir seinni leikinn í London því hin kóreska Ji So-yun og hin finnska Adelina Engman bættu síðan við mörkum á lokamínútum leiksins.

Chelsea fékk frábært færi til að bæta við marki á 81. mínútu en Fran Kirby lét þá verja frá sér vítaspyrnu.

María spilaði í stöðu vinstri bakvarðar samkvæmt opinberu uppstillingunni á vef UEFA.María er 25 ára gömul norsk landsliðskona en hún er hálfíslensk þar sem faðir hennar er handboltaþjálfarinn og Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson.

María valdi það að spila fyrir norska landsliðið frekar en það íslenska og hefur spilað 30 landsleiki fyrir norska A-landsliðið. Hún opnaði markareikninginn sinn fyrir norska landsliðið á móti Skotlandi í janúar síðastliðnum.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.