Enski boltinn

Lukaku: Mourinho fer ekki í felur með tilfinningar sínar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Félagarnir á góðri stundu.
Félagarnir á góðri stundu. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, kemur til dyranna eins og hann er klæddur og felur ekki tilfinningar sínar. Þetta segir Romelu Lukaku, framherji liðsins.

Mourinho varð bálreiður á blaðamannafundi á dögunum eftir 3-0 tap á móti Tottenham og heimtaði virðingu frá blaðamannastéttinni þar sem að hann er búinn að vinna ensku úrvalsdeildina oftar en hinir stjórarnir í deildinni til samans.

Lukaku er mikill aðdáandi Mourinho, að því að virðist vera, en hann segir Portúgalann vera fjölskyldumann sem fær leikmenn sína til að hlæja en hann krefst virðingar.

„Fólk þekkir hann sem sigurvegara en það sem að ég er ánægðastur með er að hann felur ekki tilfinningar sínar. Þegar að hann er reiður þá veistu að hann er reiður. Það sama gildir þegar að hann er ánægður,“ segir Lukaku í viðtali við BBC.

„Ég skil ekki hvers vegna fólki líkar ekki að hann kemur til dyranna eins og að hann er klæddur. Þegar að hann er reiður út í mig þá er hann reiður út í mig. Þá geri ég allt sem í mínu valdi stendur svo að hann hætti að vera reiður út í mig,“ segir Romelu Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×