Erlent

Móðir og barn fyrstu fórnarlömb Flórens

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Wilmington í dag. Fjöldi viðbragðsaðila kom að björgunaraðgerðum.
Frá vettvangi í Wilmington í dag. Fjöldi viðbragðsaðila kom að björgunaraðgerðum. Vísir/Getty
Móðir og kornabarn létust er tré féll ofan á hús þeirra í bænum Wilmington í Norður-Karólínuríki í dag. Samtals hafa nú fjórir látist vegna fellibylsins Flórens sem gengur nú yfir austurströnd Bandaríkjanna.

Lögregla í Wilmington tilkynnti um slysið síðdegis í dag að íslenskum tíma. Þá staðfesti lögregla andlát konunnar og barns hennar skömmu síðar. Maður konunnar og faðir barnsins var fluttur slasaður á sjúkrahús, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Skömmu síðar var tilkynnt um annað andlát vegna Flórens. Kona í Pender-sýslu í Norður-Karólínu hringdi á neyðarlínu vegna bráðaveikinda en lést áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn. För þeirra tafðist sökum stórra trjáa sem þveruðu leið þeirra og náðu þeir því ekki heim til konunnar í tæka tíð.

Þá hefur fjórða andlátið af völdum Flórens verið staðfest. Einn lést í Lenoir-sýslu í Norður-Karólínu þegar viðkomandi stakk rafal í samband í dag.

Fellibylurinn Flórens gekk á land á austurströnd Bandaríkjanna í morgun. Gríðarleg sjávarflóð og rigningar fylgja fellibylnum og hefur 1,7 milljón manns verið gert að yfirgefa heimili sín. Flórens er nú skilgreind sem fyrsta stigs fellibylur en er þrátt fyrir það talin afar hættuleg.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni heimsækja Karólínuríkin og önnur svæði, sem orðið hafa illa úti í fellibylnum, í næstu viku.

Í spilaranum hér að neðan má horfa á umfjöllun Stöðvar 2 um Flórens sem sýnd var í kvöldfréttum.


Tengdar fréttir

„Hvort viltu verða fyrir lest eða steypubíl?“

Fellibylurinn Florence hefur verið lækkaður niður í annars flokks fellibyl eftir að vindhraði hans lækkaði úr 225 kílómetrum á klukkstund í um 175 kílómetra, sem samsvarar rúmum 48 metrum á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×