Lífið

Urðu að stöðva tónleika eftir að Bono missti röddina

Atli Ísleifsson skrifar
Edge, Bono og Adam Clayton.
Edge, Bono og Adam Clayton. Vísir/Getty

Írska sveitin U2 varð að stöðva tónleika sína í þýsku höfuðborginni Berlín fyrr í kvöld eftir að söngvarinn Bono missti röddina. Þetta voru seinni af tvennum tónleikum sveitarinnar í Berlín á yfirstandandi Evróputúr sveitarinnar.

Sveitin var búin með fjögur lög á tónleikunum í kvöld þegar komið var að laginu Beautiful Day. Í laginu miðju þurfti Bono að lesa einstaka kafla textans og eftirlét áhorfendum að syngja. „Fyrir stuttu síðan söng ég eins og fugl,“ sagði Bono afsakandi við áhorfendur.

Sveitin fór þá af sviðinu í um stundarfjórðung til að athuga hvort að Bono fengi röddina aftur. Talsmaður Mercedes-Benz Arena, þar sem tónleikarnir fóru fram, sagði við áhorfendur að þeim yrði haldið upplýstum um gang mála. Á endanum fór hins vegar svo að sveitin varð að stöðva tónleikana. Var gestum bent á að passa vel upp á miðana sína, að hugsanlegt væri að hægt yrði að halda aðra tónleika, en að þeir yrðu að bíða frekari upplýsinga.

U2 er nú á Evrópulegg „Experience + Innocence“-tónleikaferðalagsins. Fyrri tónleikar sveitarinnar í Berlín fóru fram í gærkvöldi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.