Innlent

„Eldið upp á land, þá verður þetta allt í lagi“

Stefán Ó. Jónsson skrifar

Leigutaki í Vatnsdalsá segir að ekki leiki vafi á því að lax sem veiddist í ánni á föstudag sé eldisfiskur. Talið er að stangveiðimenn hafi veitt fjóra eldislaxa það sem af er ári, en að sögn líffræðings eru þeir aðeins toppurinn á ísjakanum.

Um er að ræða 70 sentímetra hrygnu sem veiddist á flugu í Hnausastreng í Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu, einhverjum frægasta veiðistað landsins.

Pétur Pétursson, leigutaki árinnar, segir ekki að fari á milli mála að um eldisfisk sé að ræða. Skemmdir á fisknum séu vísbending um það.

Pétur segist nokkuð viss í sinni sök, hann hafi handfjatlað lax í rúmlega 40 ár – bæði sem leigutaki Vatnsdalsár og sem fiskkaupmaður. Niðurstaða hans sé skýr. „Svona skemmdir á villilaxi, þær eru ekki til.“

Pétur ætlar að leita til Hafrannsóknarstofnunar á morgun og senda laxinn í formlega greiningu. Hann óttast að ef grunur hans reynist réttur sé vandamálið ekki aðeins bundið við Vatnsdalsá „Þetta verður um allt land og menn verða að átta sig á því að það verður að stoppa þetta. Við höfum tíma núna til að stoppa þetta, en menn verða bara að taka ákvörðun um það. Eldið upp á land, þá verður þetta allt í lagi.“

Laxinn sem veiddist í Vatnsdalsá. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Fjórir eldisfiskar
Í samtali við fréttastofu segir Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, að átælað sé að fjórir eldisfiskar hafi komið á stangir laxveiðimanna það sem af er ári. Til að mynda hafi eldislax komið á stöng í Staðará í Steingrímsfirði, en hún rennur út í Húnaflóa – rétt eins og Vatnsdalsá.

Eldisfiskarnir fjórir gefi þó aðeins takmarkaða mynd af stöðu mála. Eldislaxinn hafi tilhneigingu til að ganga seinna upp í árnar en villti laxinn og því megi ætla að raunverulegur fjöldi eldisfiska í ám landsins komi ekki strax fram  jafnvel ekki fyrr en að stangveiðitímabilinu lýkur. Þeir eldisfiskar sem veiðst hafi ánum séu því líklega aðeins toppurinn á ísjakanum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.