Íslenski boltinn

Pepsimörkin: „Beið bara eftir öðru Bjarna Guðjóns mómenti þarna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynir Leósson og Þorvaldur Örlygsson.
Reynir Leósson og Þorvaldur Örlygsson. Mynd/S2 Sport
Pepsimörkin fjölluðu mikið um leik KA og Vals í gærkvöldi en þessi fjörugi leikur hafði mikil áhrif á stöðu mála í toppbaráttu Pepsi-deildarinnar.

Valsmenn náðu að tryggja sér eitt stig í blálokin og héldu því toppsætinu en Hlíðarendaliðið tapaði þarna tveimur dýrmætum stigum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn við Stjörnuna.

Meðal þess sem var tekið fyrir í uppgjörsþætti 19. umferðarinnar úr þessum skemmtilega leik var atvik í seinni hálfleiknum þegar Valsmenn voru að gefa boltann aftur á KA-menn.

Hörður Magnússon, umsjónarmaður Pepsimarkanna, spurði þá Þorvald Örlygsson hvað hann væri að fara að sýna þeim.

„Þarna sjáum við atvik sem er mjög skemmtilegt,“ sagði Þorvaldur en KA-menn kasta þá boltanum útaf af því að það liggur meiddur maður á vellinum.

„Þetta er alltaf þessi gamla regla. Valsmenn rúlla honum til KA-manna aftur en KA-menn bíða lengi eftir því að taka boltann. Hvað ætla þeir að bíða lengi eftir því að taka boltann? Þeir eru síðan pressaðir af Guðjóni Pétri Lýðssyni sem á rétt á því,“ sagði Þorvaldur og hélt áfram:

„Eina sem Hallgrímur gerir síðan er að bomba boltanum útaf hinum megin. Það er alltaf þessi spurning um hvenær þú átt að fá tíma. Það þorði enginn að taka af skarið. Ég beið bara eftir að það kæmi þarna annað Bjarna Guðjóns móment en sem betur fer gerðist það ekki,“ sagði Þorvaldur.

Bjarni Guðjónsson skoraði frægt mark fyrir ÍA á móti Keflavík í júlí 2007 þegar Keflvíkingar héldu að hann ætlaði að sparka aftur til þeirra boltanum.

Keflvíkingar urðu þá alveg brjálaðir en Bjarni hélt því fram að hann hafi ekki ætlað að skjóta á markið heldur gefa langan bolta á markvörð Keflavíkur.

Það má sjá þetta atvik úr leiknum á Akureyrarvelli og umfjöllun Pepsimarkanna um það hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×