Innlent

Engar vísbendingar um að hið banvæna efni DNP sé í umferð á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þátttakendur í vaxtarrækt eru á meðal þeirra sem efnið er markaðssett fyrir.
Þátttakendur í vaxtarrækt eru á meðal þeirra sem efnið er markaðssett fyrir. Vísir/Getty

Matvælastofnun hefur ekki borist neinar vísbendingar um að efnið 2,4 dínótrófenól, kallað DNP, sem notað er sem fæðubótarefni í megrunartilgangi sé í umferð á Íslandi. Efnið hefur valdið að minnsta kosti 13 dauðsföllum í Bretlandi frá 2015 og þá er vitað um eitt dauðsfall í Þýskalandi.

Stofnunin hefur ítrekað varað við efninu, nú síðast í ágúst þegar dómur féll yfir manni í Bretlandi sem seldi efnið DNP á netinu sem fæðubótarefni til megrunar. Ungur háskólanemi lést eftir að hafa innbyrt efnið. Seljandinn var dæmdur fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að selja hættulegt efni til manneldis.

Óskaði Matvælastofnun eftir því að stofnunni yrði gert viðvart ef vörur sem innihalda DNP væru seldar eru hér á landi í gegnum vefsíður eða í annars konar sölu.

Ætlað í framleiðslu á viðarvörn og sprengiefni, ekki til manneldis

Í samtali við Vísi segir Zulema Sullca Porta, fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá Matvælastofnun, að engar ábendingar um að efnið væri í umferð hér á landi hafi borist Matvælastofnun frá því að tilkynningin var birt í síðasta mánuði.

Efnið er selt á netinu en yfirvöld víða í Evrópu vilja koma í veg fyrir að það sé notað til manneldis. Vísir/Getty

Yfirvöld í Bretlandi hafa greint frá því að sala efnisins, sem bannað er að selja til manneldis, hafi aukist að undanförnu á vefsíðum en efnið getur reynst baneitrað. Er það meðal annars notað við framleiðslu á viðarvörn, litarefnum, varnarefnum og sprengjuefnum.

Ólöglegt er að selja DNP til manneldis vegna alvarlegra aukaverkana sem því fylgja og geta leitt til dauða. Þrátt fyrir það er enn verið að selja og neyta efnisins því það stuðlar að þyngdartapi hjá fólki. BBC fjallaði fyrr í sumar ítarlega um efnið.

Þar var meðal annars rætt við Simon Thomas, prófessor í lyfjafræði við Háskólann í Newcastle. Sagði hann efnið vera gríðarlega hættulegt og að af öllum þeim eitrunum sem hann kæmi að væri eitrun af völdun DNP sú sem ylli hæstu hlutfalli dauðsfalla af völdum eitrunar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.