Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá Valsmönnum: „Áhyggjuefni að KSÍ hafi sýnt slíkt dómgreindarleysi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, fær gula spjaldið í leik Vals og Stjörnunnar fyrr í sumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, fær gula spjaldið í leik Vals og Stjörnunnar fyrr í sumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Knattspyrnudeild Vals hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Kristins Jakobssonar í fjölmiðlum í dag. Í yfirlýsingunni lýsa Valsmenn yfir áhyggjum af dómgreindarleysi KSÍ.

Forsaga málsins eru ummæli Ólafs Jóhannessonar, þjálfara Vals, í viðtali eftir leik KA og Vals í Pepsi deild karla í gær.

„Það er púra víti. Dómarinn er náttúrulega Stjörnumaður. Hann er fæddur og uppalinn í Stjörnuheimilinu nánast og auðvitað fór hann ekki að dæma víti fyrir okkur. Það gaf auga leið,“ sagði Ólafur í sjónvarpsviðtali eftir leikinn. Einar Ingi Jóhannsson dæmdi leikinn sem endaði með 3-3 jafntefli.

Vísir hafði í morgun samband við Kristinn Jakobsson, formann dómaranefndar KSÍ. Kristinn sagði ásakanir Ólafs alvarlegar og að framkvæmdarstjóri KSÍ myndi líklega skoða ummælin.

Í yfirlýsingunni sem knattspyrnudeild Vals setti á Twitter í dag er sagt að Einar Ingi sé „yfirlýstur Stjörnumaður“ sem hafi leikið marga leiki í meistaraflokki Stjörnunnar og KFG, venslafélagi Stjörnunnar.

„Það er í raun áhyggjuefni að KSÍ hafi sýnt slíkt dómgreindarleysi og sett Einar Inga á umræddan leik og þar með sett Einar Inga, Val og Stjörnuna í óþægilega stöðu, burt séð frá frammistöðu dómarans í leiknum. Það geta vart talist fagleg vinnubrögð og hefur rýrt trúverðuleika knattspyrnunnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjarnan og Valur eru í harðri baráttu á toppi Pepsi deildarinnar, þegar þrjár umferðir eru eftir eru Valsmenn með eins stigs forystu á Stjörnuna.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.