Erlent

Tíst Trump um dómsmálaráðherrann kennt við „bananalýðveldi“

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur verið argur dómsmálaráðherra sínum (t.h.) vegna Rússarannsóknarinnar. Hann virðist telja það hlutverk dómsmálaráðherrans að verja forsetann.
Trump hefur verið argur dómsmálaráðherra sínum (t.h.) vegna Rússarannsóknarinnar. Hann virðist telja það hlutverk dómsmálaráðherrans að verja forsetann. Vísir/EPA

Gagnrýni Donalds Trump Bandaríkjaforseta á störf dómsmálaráðherra síns á Twitter í dag hefur vakið fordæmingu, ekki aðeins í röðum pólitískra andstæðinga heldur einnig hjá sumum flokksbræðrum hans. Trump virtist gefa í skyn í tístinu að ráðherrann ætti að stöðva sakamálarannsóknir sem kæmu sér illa fyrir flokk þeirra. Einn þingmaður repúblikana tengir hugarfar forsetans til réttarkerfisins við bananalýðveldi.

Bandaríkjaforseti hefur ítrekað baunað á Jeff Sessions, dómsmálaráðherra sinn, undanfarin misseri. Trump hefur verið ósáttur við Sessions allt frá því að sá síðarnefndi lýsti sig vanhæfan til að hafa umsjón með Rússarannsókninni svonefndu sem beinist að því hvort að framboð Trump hafi átt í samráði við útsendara rússneskra stjórnvalda í fyrra.

Nýjasta tíst forsetans þar sem hann beinir spjótum sínum enn og aftur að Sessions hefur hins vegar vakið sérstaka athygli. Þar fer Trump kaldhæðnislegum orðum um Sessions í tengslum við ákærur á hendur tveimur þingmönnum repúblikana sem voru einir fyrstu stuðningsmenn Trump á þingi þegar hann bauð sig fyrst fram.

„Tvær langvarandi, Obama-tíðar, rannsóknir á tveimur mjög vinsælum þingmönnum repúblikana voru leiddar til vel auglýstra ákæra rétt fyrir þingkosningarnar af dómsmálaráðherra Jeffs Sessions. Tveir auðveldir sigrar eru nú í hættu vegna þess að það er ekki nægur tími. Vel gert Jeff......“ tísti Trump.Þar virtist hann vísa til ákæra á hendur Chris Collins, fulltrúadeildarþingmanns frá New York, og Duncan D. Hunter, fulltrúadeildarþingmanns frá Kaliforníu. Collins er ákærður fyrir innherjasvik en Hunter fyrir að hafa dregið sér fé frá forsetaframboði Trump. Sá fyrrnefndi var ákærður sex mánuðum eftir að Trump tók við embætti, þvert á það sem forsetinn tísti.

Forsenda tísts Trump virtist vera að Sessions hefði átt að beita sér til þess að stöðva rannsóknir og ákærur sem kæmu sér illa fyrir forsetann og Repúblikanaflokkinn í aðdraganda þingkosninga sem fara fram í nóvember.

Reuters-fréttastofan segir að talskona dómsmálaráðuneytisins hafi beðist undan því að tjá sig um ummæli forsetans.

Ætti frekar að verja stjórnarskrá og hlutleysi réttarkerfisins

Demókratar gagnrýndu ummæli forsetans og átöldu virðingarleysi hans fyrir lögum og reglum, þar á meðal Brian Schatz, öldungadeildarþingmaður flokksins.

„Hann felur ekki hvernig hann lítur á lögin, löggæslu, réttlætið. Í hans heimi sverja þeir honum hollustueið, ekki stjórnarskránni eða lögunum,“ tísti Schatz.

Gagnrýnin var þó ekki bundin við demókrata. Ben Sasse, öldungadeildarþingmaður repúblikana og fulltrúi í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann brást við tísti forsetans.

„Bandaríkin eru ekki eitthvað bananalýðveldi með tveggja laga dómskerfi, eitt fyrir flokkinn í meirihluta og annað fyrir flokkinn í minnihluta. Þessir tveir menn hafa verið ákærðir fyrir glæpi á grundvelli sannana, ekki vegna þess hver var forseti þegar rannsóknirnar hófust,“ sagði í yfirlýsingunni.

Ráðlagði Sasse forsetanum að verja stjórnarskrá landsins og verja hlutleysi réttarkerfisins í stað þess að tjá sig um rannsóknir og ákærur sem enn séu til meðferðar í því.
Tengdar fréttir

Notaði kosningasjóði sem eigin sparibauka

Þingmaðurinn Duncan Hunter, einn af fyrstu stuðningsmönnum Trump á þingi, var ákærður ásamt eiginkonu sinni í Kaliforníu í gær. Hann segir að um samsæri sé að ræða.

Trump segir að Sessions ætti að stöðva Mueller

Jeff Sessions sagði sig frá Rússarannsókninni á sínum tíma, eftir að í ljós kom að hann hafði sagt þingmönnum ósatt um samskipti sín og Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.