Handbolti

Boltinn inni hjá Björgvin í sögulegum VAR-dómi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var nálægt því að verja skotið.
Björgvin Páll Gústavsson var nálægt því að verja skotið. vísir/getty

Myndbandstækni var notuð í fyrsta sinn til að snúa við dómum í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta um helgina þegar að Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í GOG mættu Björgvini Páli Gústavssyni og félögum hans í Danmerkurmeistaraliði Skjern á heimavelli.

Enginn aukadómari kom í raun nálægt ákvörðuninni því dönsku dómararnir gerðu það sama og íslenskir körfuboltadómarar hafa gert um langa hríð og röltu út að hliðarlínu og horfðu á atvikið aftur.

Spænski leikmaðurinn Josef Pujol var sá fyrsti til að lenda í þessu VAR-i þegar að hann fékk rautt spjald fyrir að brjóta á norska landsliðsmanninum Bjarthe Myrhol í hraðaupphlaupi.

Það var svo á 48. mínútu sem að dómararnir vildu athuga hvort að boltinn væri inni þegar að Björgvin Páll Gústavsson, sem gekk í raðir Skjern frá Haukum í sumar, virtist ná að verja skot hornamannsins Emils Jakobsen.

Eftir að dómararnir voru búnir að skoða atvikið, reyndar án marklínutækni, dæmdu þeir mark og GOG jafnaði leikinn í 26-26. GOG fór með glæsilegan sigur á endanum, 35-34.

Óðinn Þór Ríkharðsson, sem var sjóðheitur á undirbúningstímabilinu og skoraði meðal annars ellefu mörk á móti Flensburg, setti fjögur mörk fyrir GOG en Björgvin Páll Gústavsson varði átta skot og var með 33 prósent hlutfallsvörslu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.