Lífið

Gerðu lítið úr leikara The Cosby Show fyrir að vinna á kassa í kjörbúð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Til vinstri má sjá umrædda mynd af Owens við störf afgreiðslustörf í verslun keðjunnar Trader Joe's í New Jersey í Bandaríkjunum. Til hægri má sjá Owens er hann var á hátindi Cosby-ferilsins á níunda áratugnum.
Til vinstri má sjá umrædda mynd af Owens við störf afgreiðslustörf í verslun keðjunnar Trader Joe's í New Jersey í Bandaríkjunum. Til hægri má sjá Owens er hann var á hátindi Cosby-ferilsins á níunda áratugnum. Mynd/Samsett
Bandaríski leikarinn Geoffrey Owens, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Elvin Tibideaux í þáttaröðinni The Cosby Show, varð fyrir aðkasti á samfélagsmiðlum á dögunum eftir að mynd af honum við störf á kassa í verslun keðjunnar Trader Joe‘s var dreift á netinu.

Fyrst voru birtar myndir af Owens við störf í búðinni á vef Daily Mail. Mörgum samfélagsmiðlanotendum þótti miðillinn gera lítið úr Owens með fyrirsögninni, sem undirstrikaði vistaskiptin, auk þess sem sérstaklega var tekið fram í greininni að bolur leikarans væri „blettóttur“ er hann „vigtaði poka af kartöflum“.

Þá hafa fjölmargir stokkið Owens til varnar á samfélagsmiðlum eftir að myndirnar komust í dreifingu. Leikkonan Justine Bateman var harðorð í garð þeirra sem mynduðu Owens og sagði umrædda einstaklinga „hyski“.

Breski leikarinn Chris Rankin, sem fór með hlutverk Percy Weasley í kvikmyndunum um galdrastrákinn Harry Potter, tjáði sig einnig um málið. Rankin sagðist sjálfur hafa unnið hjá bresku veitingastaðakeðjunni Wetherspoons eftir að hann lék í myndunum. „Þú gerir það sem þú þarft að gera og maður á ekki að skammast sín fyrir það,“ skrifaði Rankin í færslu á Twitter-reikning sínum.

Bandaríski leikarinn Terry Crews, sem lék amerískan fótbolta í NFL-deildinni áður en hann sló í gegn á hvíta tjaldinu, tók undir með Rankin. Crews sagðist hafa skúrað gólf eftir að fótboltaferlinum lauk. „Ég endurtæki leikinn ef ég þyrfti,“ skrifaði Crews.

Þá hefur myndbirtingin orðið til þess að myllumerkinu #ActorsWithDayJobs, eða „leikarar í dagvinnu“, var hleypt af stokkunum. Þar eru leikarar og aðrir listamenn, sem hafa neyðst til að vinna önnur störf meðfram listinni, hvattir til að segja sögu sína.

Owens er 57 ára og fór, eins og áður sagði, með hlutverk eiginmanns Sondru Huxtable, elstu dóttur Huxtable-hjónanna í síðustu fimm þáttaröðum hinna geisivinsælu The Cosby Show. Hann hefur síðan farið með hlutverk í þáttum á borð við Law & Order og It‘s Always Funny in Philadelphia. Þá hefur Owens einnig farið með hlutverk á sviði, kennt leiklist og unnið sem leikstjóri síðan hann lagði Cosby-skóna á hilluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×