Enski boltinn

Var ekki í hóp í fyrstu tveimur umferðunum en er nú kominn í enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Bettinelli ver hér vítaspyrnu um helgina.
Marcus Bettinelli ver hér vítaspyrnu um helgina. Vísir/Getty

Marcus Bettinelli, markvörður Fulham, hefur verið kallaður inn í enska landsliðið fyrir komandi leiki á móti Spáni og Sviss.

Landlsiðsþjálfarinn Gareth Southgate þurfti að gera breytingar á hópnum sínum eftir aðalmarkvörðurinn Jordan Pickford datt út. Pickford er liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.

Marcus Bettinelli er 26 ára gamall en hann var ekki í hópnum hjá Fulham í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins sem töpuðust báðir.

Fulham keypti spænska markvörðinn Fabri frá Besiktast í sumar og það var hann sem spilaði fyrstu tvo leiki liðsins.  Þá fékk Fulham líka spænska markvörðinn Sergio Rico á láni frá Sevilla. Marcus Bettinelli var ekki í hópnum í tveimur fyrstu umferðunum.

Bettinelli hefur aftur á móti spilað síðustu tvo leiki og í þeim hefur Fulham náð í fjögur stig af sex mögulegum þótt að Marcus Bettinelli hafdi fengið á sig fjögur mörk.Fulham gerði 2-2 jafntefli við Brighton á laugardaginn og þar tryggði Bettinelli liðinu stig með því að verja víti frá Pascal Gross.  

Jordan Pickford æfði ekki með enska landsliðinu í gær og þá hefur Liverpool maðurinn Adam Lallana dregið sig út úr hópnum vegna nárameiðsla.

Bettinelli kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Fulham en hann kom til félagsins þegar hann var unglingur. Hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins árið 2014 en hafði þá þrisvar farið á láni til liða í neðri deildunum.

Marcus Bettinelli spilaði einn leik með 21 árs landsliðinu árið 2015 en þjálfari þess var einmitt Gareth Southgate, núverandi þjálfari enska A-landsliðsins.

Bettinelli fær nú sæti í landsliðshópnum aðeins níu dögum eftir að hann spilaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Markverðirnir í enska landsliðshópnum er nú auk Jordan Pickford og Marcus Bettinelli þeir Jack Butland (Stoke) og Alex McCarthy (Southampton).


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.