Erlent

Trump stakk upp á því að banna mótmæli

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stakk upp á því í gær að banna ætti mótmæli í Bandaríkjunum. Það gerði hann í viðtali þar sem mótmæli gegn Hæstaréttardómaraefni hans, Brett Kavanaugh, bárust í tal. Minnst 70 mótmælendur voru handteknir í þinghúsinu í gær þar sem tilnefning Kavanaugh var til umræðu.

„Ég veit ekki af hverju þeir taka ekki á aðstæðum eins og þessum. Mér finnst það til skammar fyrir Bandaríkin að leyfa mótmælendur. Þú veist ekki einu sinni í hvaða liði mótmælendurnir eru,“ sagði forsetinn, samkvæmt Washington Post.



Hann bætti svo við að í gamla daga hefði mótmælendum verið hent út en nú fái þeir bara að öskra eins og þeir vilja.

Forsetinn hefur margsinnis gagnrýnt mótmæli af ýmsu tagi. Mörgum hefur verið vikið út af kosningafundum hans og hefur Trump jafnvel stungið upp á því að ganga ætti í skrokk á þeim.

Trump hefur einnig gagnrýnt NFL harðlega vegna mótmæla leikmanna sem hafa mótmælt ofbeldi lögreglu gagnvart þeldökkum íbúum Bandaríkjanna. Á sínum tíma hætti hann við að ferðast til Bretlands vegna fyrirhugaðra mótmæla og svo mætti lengi telja.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×