Skoðun

Fræðslumál í forgrunni

Ingibjörg Isaksen skrifar
Stór verkefni eru framundan í fræðslumálum á Akureyri. Eitt það viðamesta er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla en Alþingi þarf einnig að koma að því verkefni með lengingu fæðingarorlofs. Meirihluti bæjarstjórnar hefur gert það að markmiði sínu að taka yngri börn inn á leikskóla og koma þannig betur til móts við barnafólk á Akureyri. Þar til búið verður að fjölga leikskólaplássum mun barnafjöldi í hverjum árgangi ráða för um hversu mörg börn verður hægt að innrita í leikskólana á hverju hausti en um leið og svigrúm gefst verða þessi mikilvægu skref tekin.

Nýr leikskóli við Glerárskóla

Hafin er vinna við hönnun á nýjum leikskóla á lóð Glerárskóla en þar er gert ráð fyrir rými fyrir 140-150 börn. Þar mun verða sérstaklega búin ungbarnadeild fyrir börn á aldrinum 1-2 ára.  Áætlað er að skólinn verði tekinn í notkun árið 2021. Um leið og það verður að veruleika leggst af starfsemi í efra húsinu á Pálmholti. Húsið er komið til ára sinna og hefur sinnt hlutverki sínu vel. Neðra húsið verður áfram í notkun en með þessu fyrirkomulagi fjölgar leikskólaplássum um 90. Það er að mörgu að hyggja við uppbyggingu leikskóla, s.s. að greina íbúaþörf og aldurssamsetningu í hverfum bæjarins.  Fræðslusvið mun vinna að því verkefni í samvinnu við skipulagssvið en út frá þeim gögnum verður hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í uppbyggingu leikskóla.

Enn laust hjá dagforeldrum á Akureyri

Um leið og 12-18 mánaða börnum fjölgar í leikskólum þarf að breyta aðbúnaði og aðstöðu innandyra sem og aðlaga skólalóðir að þeirra þörfum. Með uppbyggingu leikskólans við Glerárskóla og mögulegri stækkun á Naustatjörn eða Lundarseli, mun okkur takast að stíga skref í þá átt að bjóða yngri börnum en nú er gert leikskólavist. 

Samhliða þessu er vilji til að styrkja starfsumhverfi dagforeldra því þó svo að leikskólaplássum fjölgi verður áfram þörf fyrir þjónustu þeirra. Nú eru starfandi 25 dagforeldrar á Akureyri og fyrirséð að  a.m.k. 3 nýir bætist í hópinn á haustmánuðum.

Nemendafjöldi í leikskólum Akureyrarbæjar skólaárið 2018-2019 verður um 980. Nýir nemendur verða 276 en þar af eru 53 börn fædd í janúar–mars 2017. Stefnt er að því á næsta ári að bjóða börnum sem fædd eru fyrir 30. apríl 2018 leikskólapláss eða mánuði yngri börnum en áður hefur verið. Nemendafjöldi í leikskólum skólaárið 2018-2019 er áætlaður um 980.

Faglærðir eru 90% í leikskólum bæjarins

Mikil umræða hefur verið um mönnun starfsfólks í leikskólum á landinu og sveitarfélögunum gengur misjafnlega vel að ráða faglært starfsfólk.  Á Akureyri hefur verið gengið frá ráðningum fyrir nýhafið skólaár og er hlutfall leikskólamenntaðra sem starfa með börnunum rúmlega 90% sem er með því hæsta sem gerist á landinu. Hlutfall kennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna við kennslu grunnskóla er um 99%. 

Akureyrarbær er stoltur af því starfi sem fram fer í skólum bæjarins og forystufólk í bæjarstjórn horfir björtum augum til framtíðar þar sem vandaðir starfshættir og fagmennska eru í fyrirrúmi.  

Höfundur er formaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×