Enski boltinn

Wilfried Zaha gefur kvennaliði Crystal Palace pening

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Zaha.
Wilfried Zaha. Vísir/Getty
Stærsta stjarna karlaliðs Crystal Palace ætlar að gera sitt í að hjálpa kvennaliði félagsins að ná markmiðum sínum á fótboltavellinum.

Wilfried Zaha er lykilmaður í úrvalsdeildarliði Crystal Palace og hann er gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins enda með Palace hjartað á réttum stað.

Crystal Palace Ladies berjast aftur á móti í bökkum og þurfa að verða sér úti um fleiri styrktaraðila.





Stelpurnar segjast vera mjög þakklátar Wilfried Zaha fyrir rausnarlegt framlag hans en upphæðin er sögð vera mjög rausnarleg.

Hinn 25 ára gamli Wilfried Zaha gerði á dögunum nýjan samning við Crystal Palace og er hann sagður fá 130 þúsund pund í vikulaun eða 18,4 milljónir íslenskra króna. Hann hefur því alveg efni á þessu.

Crystal Palace Ladies spilar í ensku b-deildinni en þær sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins.

„Allir vita vel hvað Crystal Palace er Wilf mikils virði og hann vill gefa ungum leikmönnum hjá Palace Ladies sömu tækifæri og hann fékk þegar hann var að koma upp hjá félaginu,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Við erum mjög þakklátar fyrir stuðning Wilf en líka fyrir stuðningin sem við fáum frá bæði Crystal Palace Football Club og Utilita Energy. Það er þessi stuðningur sem sér til þess að við getum spilað í FA Women's Championship,“ sagði í yfirlýsingunni.

Leikmenn í kvennaliðinu hafa verið hvattar til þess að safna styrkjum sjálfar, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum.  Það er hins vegar engin skylda til að fá að spila með liðinu.

Það er ekki vitað hvort einhver þeirra náði að sannfæra Wilfried Zaha um að koma með þetta framlag eða hvort hann ákvað sjálfur að gera þetta að fyrra bragði. Hvort sem er þá fær hann stóran plús í kladdann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×