Körfubolti

Dave Hopla á Íslandi: Heimsmethafi og fyrrum skotþjálfari Jordan og Kobe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dave Hopla.
Dave Hopla. Skjámynd/Youtube/ISLkarfan
Bandaríski skotþjálfarinn Dave Hopla er staddur á Íslandi á vegum Valsmanna en hann mun kenna leikmönnum Vals sem og að halda sérstakt námskeið á laugardaginn. 

Dave Hopla er heimsþekktur skotþjálfari og sjálfur heimsmetshafi í flestum þriggja stiga körfum með einn bolta á einni mínútu. Hopla skoraði átján þrista á þessari ótrúlegu mínútu.

Hopla er búinn að vera skotþjálfari í þrjátíu ár og þjálfað marga af bestu leikmönnum heims eins og þá Michael Jordan og Kobe Bryant.

Fyrirlestrar Dave Hopla eru ekki síst athyglisverðir fyrir það að hann styður jafnan mál sitt með því að raða boltum í körfuna. Á heimasíðu hans kemur fram að hann hitti að jafnaði úr 495 af 500 skotum sínum.

Árið 2005 náði hann sem dæmi að hitta úr 35.332 af 35.979 skotum sínum á fyrirlestrunum en það gerir 98,2 prósent nýtingu. Hann gerði enn betur sumarið 2008 þegar hann hitti úr 11.093 af 11.183 skotum eða 99,19 prósent.

Dave Hopla hefur unnið með liðum í NBA, WNBA og hákskólakörfuboltanum sem og að vinna með einstökum körfuboltamönnum.

Frægt dæmi af áhrifum hans var hjá NBA-liðinu Toronto Raptors tímabilið 2006 til 2007. Liðið hækkaði þriggja stiga skotnýtingu sína úr 30 prósent í nóvember 2006 í 40 prósent í janúar 2007 eða þá mánuði sem Hopla vann liðinu.

Hopla hefur fullkomnað skothreyfinguna og þykir einnig mjög skemmtilegur kennari. Það gætu því margir bætt skotið sitt með því að komast í kynni við hann.

Karfan tók viðtal við Dave Hopla og má sjá það hér fyrir neðan eða að smella hér.  Það verður síðan opin æfing á Hlíðarenda næstkomandi laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×