Innlent

Stofna á leigufélag sem einblínir á landsbyggðina

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar

Íbúðalánasjóður ætlar að styrkja og byggja upp leigumarkaðinn á landsbyggðinni með stofnun nýs leigufélags. Nýta á þær 300 eignir sem sjóðurinn á úti á landi. 

Í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar, þá félags- og jafnréttismálaráðherra, voru tvær reglugerðir undirritaðar sem miðuðu að því að taka á erfiðri stöðu leigjenda á húsnæðismarkaði. Ráðherran fól Íbúðalánasjóði að stofna leigufélag sem muni leigja út þær íbúðir, sem nú eru í höndum sjóðsins, á góðu verði.

Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íbúðalánasjóði segir verkefni komið vel á veg og félagið muni einblína á landsbyggðina. „Við erum búin að skoða ferlið og undirbúa stofnunina. Erum ennþá að fara yfir útfærsluatriði sem þarf að klára. En við erum komin vel á veg í vinnunni,” segir Soffía.

Ásmundur fer á fund Finna
Horft er til annarra Norðurlanda til viðmiðunar en Ásmundur Einarsson, núverandi félagsmálaráðherra, tók við verkefninu og fer seinna í mánuðinum á fund með finnskum húsnæðismálayfirvöldum. Þar hyggst hann kynna sér sérstaklega ríkisleigufélag sem Finnar settu á laggirnar fyrir tekju- og eignalágt fólk. 

„Eins og við vitum líka þá eru húsnæðismál gríðarlega mikið hagsmunamál í dag. Húsnæðisskortur er í landinu og húsnæðiskostur er dýr. Við teljum í rauninni með því að taka þær eignir sem sjóðurinn á í dag og koma þeim í leigu á landsbyggðinni þá getum við stuðlað að styrkingu og uppbyggingu leigumarkaðar þar,” segir Soffía.

Tækifæri fyrir fólk að flytja út á land
Markmið félagsins verður að mæta þeim sem eru tekju- og eignaminni og vantar húsnæði. „Þetta mun breyta því fyrir landsbyggðina að það koma inn húsnæði sem ekki hafa verið í leigu áður. Tækifæri fyrir fólk að flytja út á land ef það vill flytja þangað, skipta kannski um vinnu og prófa eitthvað nýtt,” segir hún. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.