Skoðun
Andrés Ingi Jónsson
þingmaður Vinstri grænna

Setjum tappann í!

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Honum er viss vorkunn, kaupsýslumanninum sem fjárfesti í vídeóleigu um aldamótin. Hvernig átti hann að vita að nokkrum árum síðar yrðu vídeóleigurnar dauðar? Það getur nefnilega verið erfitt að átta sig á grundvallarbreytingum í samfélaginu á meðan þær eru að eiga sér stað.

Líklegt er að eins fari með fjárfestingu í mengandi olíuiðnaði og vídeóleigurnar. Að fólki þyki skrýtið í baksýnisspeglinum að einhverjum hafi dottið til hugar að setja meiri pening í dauðvona olíuhagkerfið í byrjun 21. aldarinnar.

Þó eru það endalok sem er auðveldara að sjá fyrir.

Kallar á samhent átak

Baráttan gegn loftslagsvánni kallar á samhent átak allra jarðarbúa. Hagsmunirnir eru sameiginlegir.

Þess vegna hafa ríki heims gert með sér samkomulag um aðgerðir í loftslagsmálum. Parísarsamkomulagið snýst um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan við 2°C. Þetta hefur margt í för með sér, hvort sem er varðandi stefnu stjórnvalda, framleiðslu fyrirtækja eða neyslu einstaklinga. Eitt af því er að skilja þarf stærstan hluta af þekktum birgðum jarðefnaeldsneytis eftir í jörðinni.

Ríki heims hafa þannig í raun komið sér saman um endalok olíualdarinnar.

Ef ekki er ráðlegt að nýta þá olíu sem vitað er um þarf enn síður að finna nýjar olíulindir. Það er því skrýtið að hugsa til þess að ekki séu nema fimm ár liðin síðan reynt var að setja íslenska olíuævintýrið af stað með útgáfu sérleyfa til að leita að kolvetni á Drekasvæðinu. Svipað og að kaupa sér vídeóleigu rétt áður en sá markaður hætti að vera til.

Horfumst í augu við orðinn hlut

Fyrr á þessu ári rann síðasta sérleyfið til olíuleitar úr gildi. Til að sýna að Íslandi sé full alvara í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eigum við að horfast í augu við orðinn hlut og setja tappann í. Sammælumst um að sú olía sem kann að vera undir hafsbotni verði þar óhreyfð um aldur og ævi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

27

Þórarinn Þórarinsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.