Golf

Ólafía Þórunn með flottan hring í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er örugg í gegnum niðurskurðinn á Lacoste Ladies Open de France mótinu en það er hluti af LET Evrópumótaröðinni. Bestu íslensku kvenkylfingarnir eru báðar með á mótinu.

Ólafía Þórunn lék annan hringinn á 68 höggum eða þremur höggum undir pari. Hún fór fyrsta hringinn á pari í gær og er nú í 16. sæti á þremur höggum undir pari.

Mótið fer fram á Golf du Medoc – Chateaux vellinum  í suðvestur Frakklandi.

Niðurskurðarlínan er núna við +1 og Ólafía Þórunn getur því farið að undirbúa sig fyrir þriðja hringinn á morgun.

Ólafía Þórunn fékk fimm fugla og tvo skolla á hringnum í dag. Hún er búin að ná í fugl tvo daga í röð á bæði níundu og fjórtándu holunni en þær eru báðar par fimm holur.

Valdís Þóra Jónsdóttir er líka á mótinu og spilaði mun betur en í gær. Hún átti hins vegar litla möguleika að ná niðurskurðinum eftir slæman fyrsta dag.

Valdís Þóra lék fyrsta hringinn á 78 höggum eða sjö höggum yfir pari. Hún fékk sex fugla á hringnum í dag en það var ekki nóg. Það munaði samt litlu hjá Skagakonunni sem var ekki tilbúin að gefast upp. Hún lék á þremur höggum undir pari í dag og endaði því keppni fjórum höggum yfir pari.  Það skilar henni í 86. sætið eins og er.

Valdís Þóra var í 22. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar fyrir mótið. Mótið í Frakklandi er ellefta mótið hjá Valdísi Þóru á þessu keppnistímabiliu á mótaröðinni. Besti árangur hennar er þriðja sæti.

Ólafía Þórunn er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni samhliða keppnisrétti hennar á LPGA mótaröðinni. Ólafía Þórunn er í 100. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar. Mótið í Frakklandi er þriðja mótið á þessari leiktíð hjá Ólafíu á LET mótaröðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.