Umfjöllun, viðtöl og myndir: Breiðablik - Þór/KA 3-0 | Breiðablik með níu fingur á Íslandsmeistaratitlinum

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Blikastúlkur eru með fimm stiga forskot á toppnum.
Blikastúlkur eru með fimm stiga forskot á toppnum. vísir/eyjólfur
Breiðablik er í frábærri stöðu til að tryggja sér íslandsmeistaratitilinn í fótbolta kvenna. Liðið vann 3-0 sigur á heimavelli gegn Þór/KA í dag. Eftir leikinn eru Blikar með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar þegar það eru tvær umferðir eftir af tímabilinu.

Þór/KA var mikið meira með boltann allan leikinn og sást langar leiðir að stelpurnar komu ekki alla leið í Kópavoginn til að ná í jafntefli. Þrátt fyrir að vera mikið meira með boltann voru Akureyringarnir ekki endilega að skapa mikið af hættulegum færum og gekk vel hjá Blikum að loka teignum.

Fyrsta mark leiksins kom á 33. mínútu, Alexandra Jóhannsdóttir skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Alexandra bætti við 2-0 markinu á 88. mínútu og svo setti Agla María Albertsdóttir 3-0 markið í uppbótartíma.

Afhverju vann Breiðablik?

Blikar nýttu færin betur í dag. Blikar eru með gríðarlega hættulega leikmenn í skyndisóknum og því hentaði vel að leyfa Þór/KA að vera meira með boltann og refsa svo.

Hverjar stóðu upp úr?

Erfitt að velja í þetta úr Breiðabliksliðinu en þetta var gríðarlega góð liðsframmistaða hjá stelpunum. Markaskorararnir voru báðar virkilega góðar allan leikinn og eiga hrós skilið. Sonný Lára var einnig virkilega örugg í markinu eins og oft áður.

Úr Þór/KA voru það Sandra Mayor og Hulda Ósk sem sköpuðu mestu hættuna í leiknum en þær náðu þó aldrei að koma boltanum í netið. 

Hvað gekk illa?

Ekki mikið sem er hægt að setja út á hjá Blikum en það má setja spurningarmerki við varnarleikinn hjá Þór/KA nokkrum sinnum þegar þær hleypa Blikum oft í stórhættulegar skyndisóknir.

Allt fyrir framan rammann gekk illa hjá Þór/KA ef út í það er farið. 

Hvað gerist næst?

Blikar taka á móti Selfossi á heimavelli þar næstkomandi mánudag, ef þær vinna þann leik eru þær Íslandsmeistarar.

Þór/KA fá Hlíðarendastúlkur í heimsókn á sama tíma og verða að treysta á að Selfoss steli stigi á Kópavogsvelli til að halda draumnum um Íslandsmeistaratitil á lífi. 

Eyjólfur Garðarsson, ljósmyndari Vísis, var á Kópavogsvelli í dag og tók myndirnar með fréttinni.

Þorsteinn: Erum ekki búin að vinna neitt

„Skipuleg og agi,” sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks aðspurður hvað lykillinn að sigrinum hér í dag hafi verið. Blikaliðið spilaði gríðarlega agaðan varnarleik og sást langar leiðir að það átti ekki að taka óþarfa sénsa.

„Já maður kvartar ekki yfir 3-0, kannski smá kafli í seinni þar sem við héldum ekki boltanum nógu vel og þær lágu aðeins á okkur en heilt yfir gekk þetta bara vel og við kvörtum ekki í dag,” sagði Þorsteinn þegar hann var spurður hvernig honum leikskipulagið ganga í dag.

Það er verið að kalla íslandmeistarar úr stúkunni, myndir þú segja að þið séuð komin með eina hönd á bikarinn?

„Nei við erum bara búin að spila 16 leiki og eigum tvo eftir. Við erum ekki búin að vinna neitt, það var enginn afhentur bikar hérna núna þannig að við þurfum að halda áfram og vera klár í næsta leik. Njóta þess að vinna í dag og hérna vera bara tilbúin í næsta leik það er það sem þetta snýst um aðallega.”

 

Halldór Jón: Þær skoruðu þrjú og við ekki neitt

3-0 tap í dag, hvað myndir þú segja að hafi kostað ykkur leikinn?

„Þær skoruðu þrjú og við ekki neitt, það er ógeðslega leiðinlegt svar en það var pínu þannig, mér fannst við spila að mörgu leyti ágætlega í dag, mér fannst við halda boltanum mjög vel og komum okkur oft í ágætar stöður sem við náðum ekki að vinna nógu vel úr. Mér fannst stelpurnar mínar leggja sig allar fram í dag og þær áttu að mínu mati skilið að fá meira úr leiknum heldur en ekkert. Mér fannst hinsvegar Breiðablik standa sig mjög vel, mjög flott set-up hjá þeim og það sem þær gerðu í leiknum fannst mér þær gera bara mjög vel og þær eiga hrós skilið. Eigum við ekki bara að segja þetta sé eðlilega bara verðskuldaður sigur, þær unnu 3-0.”

Myndir þú segja að það hafi hrjáð ykkur að þurfa að sækja sigur hérna, miðað við að þær gátu kannski aðeins meira legið tilbaka?

„Nei nei alls ekki, við erum sækja sigur í öllum leikjum þannig að það mun aldrei hrjá Þór/KA. Við ætlum alltaf að vinna alltaf, hvort þær þurftu stig eða ekki, þær gerðu bara sitt það sem þær gerðu. Gerðu það bara vel en að sama skapi fannst mér við bara getað nýtt okkar leikstöður og það sem við vorum að gera, við hefðum getað nýtt það betur. Koma okkur í betri færi og nýtt þau færi sem við fengum, hefðum vissulega átt að fá víti, það hefði kannski breytt einhverju en hérna úr því sem komið er þá er þetta bara búið og við undirbúum okkur bara fyrir næsta leik og næstu leikjum bara deildinni. Ætlum að klára þetta almennilega.”

„Já ég held að það sé alveg á hreinu og það viti það nú allir en ég nenni ekkert að tala um dómarann, við töpum ekkert á því, við töpum 3-0 og þetta var bara eitt atvik þarna. Við hefðum getað verið klókari líka í lokinn að klára leikinn t.d. með ellefu inná. Hefðum getað gert bara betur heilt yfir í leiknum og það er ekkert endilega að við fengum ekki víti að kenna að við töpuðum. Við áttum að gera betur, bæði í markinu sem þær skora fyrst, áttum við að vera nær þeim leikmanni sem skoraði og svo eins og ég sagði sóknarlega þá hefðum við getað nýtt okkar leikstöðu betur og komist oftar í betri leikstöður og nýtt færin eftir það,” sagði Halldór aðspurður að því hvort að honum hafi fundist að dómarinn hafi átt að dæma vítaspyrnu á 66. mínútu.

Alexandra: Bara geggjuð sko

Tvö mörk í toppslag í dag, hvernig er tilfinningin?

„Hún er bara frábær, bara geggjuð sko.”

Hvernig fannst þér leikurinn ganga hjá ykkur í dag?

„Planið var alveg að sitja svolítið og leyfa þeim bara að koma á okkur og fá þá svæðin á bakvið þær sem mér fannst bara ganga vel í dag. Þær opnuðu okkur ekkert og við nýttum færin sem við fengum.”

„Það er nú ekki hægt að segja það strax, það er bara næsti leikur og við sjáum bara hvernig hann fer, við förum bara í hann til að vinna eins og alla aðra leiki og svo bara vonandi fáum við þrjú stig úr þeim leik,” sagði Alexandra þegar hann var spurð hvort hún væri tilbúin að fagna titlinum eftir næsta leik.

vísir/eyjólfur garðarsson
vísir/eyjólfur garðarsson
vísir/eyjólfur garðarsson

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira