Íslenski boltinn

Þorsteinn: Stærsti leikur sumarsins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þorsteinn Halldórsson
Þorsteinn Halldórsson S2 Sport

Breiðablik og Þór/KA mætast í risaleik á Kópavogsvelli á morgun. Sigurvegari leiksins verður með pálmann í höndunum í toppbaráttunni í Pepsi deild kvenna.

Það eru þrjár umferðir eftir af deildinni og Breiðablik situr á toppnum með 40 stig. Í öðru sæti er Þór/KA með 38 stig, eina liðið sem hefur unnið Blika í sumar.

„Eins og þetta lítur út núna er þetta stærsti leikur sumarsins og getur ráðið miklu um framhaldið,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta er nýr leikur, við vorum ekki að spila neitt vel í fyrri leiknum. Vonandi lærum við af þeim leik, hvernig við komum inn í hann og hvað við gerðum, og tökum það góða sem við sýndum í þeim leik og lagfærum aðeins það slaka.“

Fáir spáðu Blikum í toppbaráttuna fyrir mótið en þær hafa verið óstöðvandi og unnu bikarmeistaratitilinn á dögunum.

„Við áttum að vera í einhverri baráttu en vera aðeins á eftir. Ég held bara að þessar stelpur hafi sýnt það í sumar að þær eru ekki bara ungar, þær eru góðar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

Leikur Breiðabliks og Þórs/KA hefst klukkan 14:00 á morgun og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.