Innlent

Ráðherra telur dagsferðir að Jökulsárlóni vera „bull“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, gagnrýnir harðlega þau ferðaþjónustufyrirtæki sem fara með erlenda ferðamenn á einum degi að Jökulsárlóni frá Reykjavík. Hann lýsir slíkum ferðum sem „bulli“ og og þær séu „galin upplifun“ fyrir ferðamennina.

Dagsferðir í Jökulsárlón frá höfuðborginni komu til tals á fundi um samgöngumál með ráðherra og forsetum bæjarstjórnar Árborgar og Hveragerðisbæjar í gærkvöldi. Þar var meðal annars rætt um að erlendir ferðamenn stöldruðu nú skemur við á landinu en áður.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, sagði ferðamennina stoppa styttra og eyða minna. Til merkis um það væru ferðaþjónustufyrirtækin byrjuð að bjóða upp á dagsferðir frá Reykjavík eftir allri suðurströndinni að Jökulsárlóni.

Sigurður Ingi sagði það út í hött að bjóða ferðamönnum upp á slíkar dagsferðir. Hann hefði meðal annars áhyggjur af bílstjórum í þeim ferðum sem þyrftu að aka frá snemma að morgni og langt fram á kvöld óháð árstíðum og veðri.

„Þetta er bara bull, þetta þarf að koma í veg fyrir, þessu þurfum við að stýra með einhverjum hætti. Fólk verður bara að gista ef það ætlar svona langt. Bílstjórinn getur ekki verið að keyra fimm til sex hundruð kílómetra á þessum tíma og svo er þetta bara galin upplifun fyrir fólkið“, sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×