Íslenski boltinn

FH fallið eftir þrennu frá Hlín

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hlín var á skotskónum í dag en hér er hún í leik með íslenska landsliðinu.
Hlín var á skotskónum í dag en hér er hún í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty

FH er fallið úr Pepsi deild kvenna eftir tap gegn Val á Hlíðarenda í kvöld. Stjarnan vann öruggan sigur á KR.

FH þurfti sigur til þess að eiga raunhæfan möguleika á að halda sér í efstu deild. Gestirnir byrjuðu af krafti en fengu mark í andlitið strax á fimmtu mínútu.

Elín Metta Jensen var ein inni á vítateig FH og þá þarf ekki að spurja að leikslokum.

Hlín Eiríksdóttir skoraði annað mark Vals á 36. mínútu og átti hún eftir að láta meira til sín taka. Staðan var 2-0 í hálfleik og eftir markalausan seinni hálfleik skoraði Hlín tvö mörk á fimm mínútna kafla undir lok leiksins og fullkomnaði þrennuna.

Niðurstaðan 4-0 sigur Vals og FH spilar í Inkasso deildinni á næsta tímabili.

Á Samsungvellinum í Garðabæ mættust Stjarnan og KR. Stjörnukonur hafa að litlu að keppa en KR er í bullandi fallbaráttu.

Fyrri hálfleikur var markalaus og öll þrjú mörk Stjörnunnar í leiknum komu á níu mínútna kafla í seinni hluta síðari hálfleiks.

Megan Dunnigan átti fyrsta markið á 76. mínútu, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir bætti við á 82. mínútu og Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði síðasta mark leiksins á 85. mínútu.

Grindvíkingar, sem eru í fallsæti með 10 stig, geta jafnað KR að stigum með sigri á ÍBV á morgun. Markatala KR er hins vegar mun betri heldur en Grindvíkinga og ættu þær því að haldast í öruggu sæti, að minnsta kosti út þessa umferð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.