Enski boltinn

Bellerin segir „ómögulegt“ fyrir fótboltamann að vera opinberlega samkynhneigður

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hector Bellerin þarf að líða níð fyrir að safna hári
Hector Bellerin þarf að líða níð fyrir að safna hári Vísir/Getty
Arsenalmaðurinn Hector Bellerin segist fá mikið af níði gegn samkynhneigð frá stuðningsmönnum í ensku úrvalsdeildinni.

Bellerin hefur ekki opinberað að hann sé samkynhneigður, það er enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni opinberlega samkynhneigður, en Bellerin er fórnarlamb níðs gagnvart samkynhneigðum.

„Mesta níðið er á netinu en ég heyri þetta á völlunum í úrvasldeildinni líka. Fólk hefur kallað mig lesbíu fyrir að vera með sítt hár,“ sagði Bellerin við breska blaðið The Times.

„Ég fæ líka ýmsar aðrar niðrandi athugasemdir. Ég er með nokkuð þykkan skráp en þetta getur haft áhrif á þig.“

„Vandamálið er að fólk er með þessa ímynd af því hvernig fótboltamaður á að líta út og haga sér, hvað þeir eigi að tala um. Ef maður fer aðeins út fyrir þá ímynd þá er níðst á þér.“

Bellerin heldur að það sé erfiðara fyrir fótboltamenn að opinbera samkynhneigð sína heldur en í öðrum íþróttum.

„Það er ómögulegt að vera opinberlega samkynhneigður í fótboltanum. Sumir stuðningsmennirnir eru ekki tilbúnir í það.“

„Þegar Gareth Thomas [velskur rúgbýleikmaður] opinberaði samkynhneigð sína þá virti fólk hann fyrir það. Í fótboltanum er öðruvísi menning og níðið getur verið mjög persónulegt og illa innrætt, sérstaklega fyrir leikmenn andstæðingsins,“ sagði Hector Bellerin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×