Erlent

Svíþjóðardemókratar með tæp 20 prósent samkvæmt útgönguspá

Birgir Olgeirsson skrifar
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata Vísir/EPA
Útgönguspá sænska ríkissjónvarpsins gerir ráð fyrir að Svíþjóðardemókratar muni fá 19,2 prósenta fylgi í þingkosningum þar í landi. Kjörstöðum var lokað klukkan átta í Svíþjóð en búist er við að fyrstu tölur berist innan skamms.

Samkvæmt útgönguspá sænska ríkisjónvarpsins mældust Jafnaðarmenn 26,2 prósent, Moderaterna, 17,8 prósent, Vinstri 9 prósent, Miðflokkurinn 8,9 prósent, Kristilegir demókratar 7,4 prósent, Frljálslyndir 5,5, prósent og Græningjar 4,2 prósent.

Minnihlutastjórn jafnaðarmanna og Græningja hefur stýrt ríkisstjórn Svíþjóðar síðastliðið kjörtímabil.

Innflytjendamálin hafa verið fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninga í Svíþjóð en Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur sakað ríkisstjórnina um að hafa forgangsraðað þörfum innflytjenda á kostnað innfæddra Svía á síðasta kjörtímabili.

Búist er við verulegri fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata ef miðað er við nýjustu skoðanakannanir. Í síðustu þingkosningum fékk flokkurinn um 13% atkvæða en nú mælist hann með um 18%. 


Tengdar fréttir

Segir Svíþjóðardemókrata í oddastöðu

Svíþjóðardemókratar eru í oddastöðu, þrátt fyrir að vera ekki líklegir til að sitja í ríkisstjórn, að sögn stjórnmálafræðings við háskólann í Malmö. Nýtt pólitískt landslag blasir við í Svíþjóð í framhaldi af þingkosningunum í dag en búist er við góðri kjörsókn og spennandi kosningum.

Svíar ganga til kosninga

Úrslitin gætu orðið óvænt því um 20% Svía eiga eftir að gera upp hug sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×