Erlent

Formaður Svíþjóðardemókrata segir flokkinn eiga eftir að ráða miklu um stefnu Svíþjóðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Jimmie Akesson ávarpar stuðningsmenn sína.
Jimmie Akesson ávarpar stuðningsmenn sína. Vísir/EPA
Jimmie Akesson, formaður Svíþjóðardemókrata, sagði á kosningavöku að hann væri reiðubúinn til viðræðna við alla flokka eftir að flokkur hans hafði hlotið mikla fylgisaukningu í þingkosningum í Svíþjóð.

Flokkur hans hefur markað sér skýra stefnu gegn innflytjendum og hét Akesson því að nýta sér þennan meðbyr sem flokkurinn hans hefur fengið til aðgerða.

„Við höfum fjölgað þingsætum okkar og við munum hafa mikið um það að segja hvað gerist í Svíþjóð á næstu vikum, mánuðum og árum,“ sagði Akesson við stuðningsmenn sína en frá þessu er greint á fréttaveitu Reuters.

Akesson skoraði á Ulf Kristersson, formann hægriflokksins Modertana, að velja á milli Svíþjóðademókrata og Jafnaðarmanna sem er leiddir af forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Lofven.

Kristersson kallaði eftir afsögn forsætisráðherrans í ræðu í kvöld þegar búið var að telja mikinn meirihluta atkvæða.

Þegar búið var að telja tæp 85 prósent atkvæða  voru Jafnaðarmenn með 28,3 prósent og tapa 2,8 prósenta fylgi, Moderaterna er með 19,8 prósenta fylgi, Svíþjóðardemókratar 17.7 prósent og æbta við sig 4,7 prósentum, Miðflokkurinn 8,6 prósent, Vinstri 7,9 prósent, Kristilegir demókratar 6,4 prósent, Frjálslyndir 5,5 prósent og Græningjar 4,4 prósent.

Er ekki búist við stórkostlegum breytingum á fylginu úr þessu.

Miðað við niðurstöðuna eru fræðingar á því að erfitt muni reynast að mynda ríkisstjórn. Bæði vinstri og hægri flokkarnir hafa forðast að tala um bandalag við Svíþjóðardemókrata sem mun gera þeim erfitt fyrir við stjórnarmyndunarviðræður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×