Erlent

Bandaríkjaforseti níðir Watergate-blaðamann og sakar NBC um fölsun

Kjartan Kjartansson skrifar
Carl Bernstein skrifaði ítarlega um Watergate-málið á sínum tíma ásamt félaga sínum Bob Woodward á Washington Post.
Carl Bernstein skrifaði ítarlega um Watergate-málið á sínum tíma ásamt félaga sínum Bob Woodward á Washington Post. Vísir/EPA

Bræði Donalds Trump Bandaríkjaforseta beinist nú að Carl Bernstein, öðrum blaðamannanna sem helst hefur verið eignaður heiður af því að varpa ljósi á Watergate-hneykslið. Sakar forsetinn hann um „hroðvirkni“ vegna fréttar CNN um umtalaðan fund framboðs hans með Rússum. Forsetinn heldur því einnig fram að NBC hafi átt við þýðingarmikið sjónvarpsviðtal við sig í fyrra.

Trump hefur farið mikinn á Twitter síðustu sólahringa vegna fréttar CNN-fréttastöðvarinnar frá því í síðasta mánuði um að hann hafi mögulega vitað af fundi sem sonur hans, tengdasonur og þáverandi kosningastjóri áttu með Rússum í Trump-turninum sumarið 2016. Þeim hafði verið lofað skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata.

Lanny Davis, lögmaður Michaels Cohen, fyrrverandi persónulegs lögmanns Trump, hafði gefið í skyn að Cohen gæti gefið upplýsingar um að Trump hefði vitað af fundinum fyrirfram, þvert á það sem forsetinn hefur fullyrt. Davis hefur síðan dregið í land.

CNN hefur engu að síður sagst standa með upphaflegri frétt sinni. Í henni hafi ekki verið fullyrt að Trump hafi vitað af fundinum heldur aðeins að Cohen hefði sagt saksóknurum að hann hafi vitað til þess. Davis hafi ekki verið eini heimildarmaðurinn sem fréttin byggði á.

Málið hefur verið Trump efniviður í áframhaldandi árásir á CNN og fjölmiðla í heild sem hann hefur ítrekað kallað „þjóðníðinga“. Kallaði Trump meðal annars eftir því að Jeff Zucker, forseti CNN, yrði rekinn í einu tísta sinna í dag.

„CNN er að rifna í sundur innan frá vegna þess að þeir voru gripnir í meiriháttar lygi og neita að viðurkenna mistök. Hroðvirknislegi [Carl Bernstein], maður sem lifir í fortíðinni og hugsar eins og úrkynjað flón, skáldar upp frétt eftir frétt, er aðhlátursefni um allt land! Falsfréttir,“ tísti Trump í gær.Bernstein var einn þeirra sem voru skrifaðir fyrir frétt CNN. Hann er þekktastur fyrir að hafa fjallað um Watergate-hneykslið fyrir Washington Post á 8. áratug síðustu aldar. Hneykslið leiddi til þess að Nixon sagði af sér.

Blaðamaðurinn tók gagnrýni forsetans ekki þegjandi og sagðist hafa helgað sig því að varpa ljósi á sannleikann í tíð ríkisstjórna beggja flokka.

„Engar háðsglósur munu draga úr skuldbindingu minni við það markmið sem er grundvallarhlutverk frjálsra fjölmiðla. CNN stendur við frétt sína og ég stend við fréttaskrif mín,“ tísti Bernstein á móti.Forsetinn hélt áfram að láta móðan mása gegn fjölmiðlum í morgun og virtist gefa í skyn að NBC-sjónvarpsstöðin hefði átt við viðtal við hann sem var tekið skömmu eftir að hann rak James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í fyrra án þess þó að nefna neinar sannanir því til stuðnings.

Í viðtalinu við fréttamanninn Lester Holt viðurkenndi Trump að raunverulega ástæðan fyrir því að hann rak Comey hafi verið Rússarannsókn FBI. Rannsóknin beinist að því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt í samráði við Rússa fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Trump tísti í morgun um að NBC væri versti fjölmiðillinn á eftir CNN.

„Þegar Lester Holt var gripinn við að eiga við upptökuna mína um Rússland þá særðust þeir illa!“ skrifaði forsetinn.NBC hefur enn ekki brugðist við ásökunum Bandaríkjaforseta.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá hluta af viðtali Holt við Trump í fyrra þar sem forsetinn segist hafa haft Rússarannsóknina í huga þegar hann rak Comey.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.