Viðskipti innlent

Icelandair bregst við hækkandi olíuverði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málefni Icelandair hafa verið fyrirferðarmikil í fréttum undanfarnar vikur.
Málefni Icelandair hafa verið fyrirferðarmikil í fréttum undanfarnar vikur. Vísir/Vilhelm
Icelandair hefur tilkynnt umboðs- og söluaðilum sem eru í samstarfi við félagið að félagið hyggist hækka eldsneytisálag á flugmiðum félagsins frá og með 1. september næstkomandi.

Breytingin tekur því gildi á laugardaginn en samkvæmt heimildum fréttastofu mun eldsneytisálagið hækka á hvern farþega á flugleiðum frá Bandaríkjunum til Íslands um sex dollara á hverjum flugglegg, eða um 650 krónur.

Samkvæmt gildandi gjaldskrá er eldsneytisálag Icelandair á flugleiðum frá Bandaríkjunum og til Íslands 64 dollarar, um 6.800 krónur, á hvern farþega en verður frá og með 1. september 70 dollarar, um 7.500 krónur.

Þá mun eldsneytisálagið einnig hækka á flugleiðum frá Kanada til Íslands, mun það fara úr 88 kanadadollurum, 7.250 krónum yfir í 97 kanadadollara, um 8.000 krónur og nemur hækkunin því um 750 krónum á hvern fluglegg.

Sölu- og umboðsaðilum var tilkynnt um hækkunina í dag en sem fyrr segir mun hún taka gildi á laugardaginn. Líklegt má telja að ákvörðun félagsins um hækkun á eldsneytisálagi sé liður í því að snúa við gengi félagsins eftir erfiða mánuði að undanförnu, sem meðal annars má rekja til hækkandi eldsneytisverðs.

Starfandi forstjóri félagsins sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að markaðs- og sölustarf félagsins yrði allt tekið til endurskoðunar en leit stendur nú yfir að nýjum forstjóra eftir að Björgólfur Jóhannsson sagði upp störfum fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir

Dýr olía þyngir róður evrópskra félaga

Afkoma evrópskra flugfélaga fer versnandi vegna hækkunar á olíuverði og launum. Greinandi segir mörg flugfélög þurfa nauðsynlega á því að halda að flugfargjöld hækki. Fjárfestar og stjórnendur flugfélaga telja sameiningar á evrópskum flugmarkaði óumflýjanlegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×