Erlent

Samstarfsmaður Manafort játar að hafa starfað á vegum annars ríkis

Samúel Karl Ólason skrifar
W. Samúel Patten.
W. Samúel Patten. Vísir/AP

W. Samúel Patten, fyrrverandi samstarfsmaður Paul Manafort, hefur játað fyrir dómi að hafa ekki skráð sig sem útsendara erlendra aðila vegna vinnu hans fyrir úkraínskan stjórnmálaflokk sem er hliðhollur Rússlandi. Patten játaði að hafa séð um að koma 50 þúsund dala fjárframlagi frá erlendum aðila í embættistökusjóð Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Um er að ræða mál sem rannsakendur Robert Mueller, sérstaks saksóknara Dómsmálaráðuneytisins, komust á snoðir um við rannsókn þeirra á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 og vísuðu til saksóknara í Washington DC.
Patten á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm en hann hét því að starfa með rannsakendum í skiptum fyrir yfirlýsingu saksóknara um mildari dóm en ella.

Auk þess að hafa starfað fyrir stjórnmálaflokkinn Oppostition Bloc í Úkraínu starfaði Patten einnig um tíma fyrir umdeilda fyrirtækið Cambridge Analytica. Þá starfaði hann einnig með Paul Manafort til langs tíma. Paul Manafort er hvað best þekktur sem fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump.

Manafort var nýverið dæmdur fyrir peningaþvott og banka- og skattsvik. Þá stendur til að rétta yfir honum í öðru máli á næstunni þar sem hann hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti og fyrir að hafa ekki skráð sig sem útsendari erlendra aðila, sem er sama brot og Patten hefur játað.

Sjá einnig: Hver er Paul Manafort? Hátt fall mannsins á bak við tjöldin

Patten mun hafa starfað sem útsendari Opposition Bloc á árunum 2015 til 17 og reyndi hann að hafa áhrif á ýmsa þingmenn Bandaríkjanna á þeim tíma, án þess að skrá hjá yfirvöldum Bandaríkjanna fyrir hvern hann væri að vinna, eins og lögin segja til um.

Þá starfaði Pettan með Konstantin Kilimnik í Úkraínu. Því hefur verið haldið fram af yfirvöldum Bandaríkjanna að Kilimnik, sem einnig var náinn samstarfsmaður Manafort, sé rússneskur njósnari. Hann hefur verið ákærður fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar með því að hafa áhrif á vitni í Rússarannsókn Mueller, eins og hún er kölluð.

Saman munu Patten og Kilimnik hafa hjálpað ónafngreindum erlendum aðila að kaupa miða á embættistöku Trump fyrir 50 þúsund dali. Þeir réðu bandarískan mann til að kaupa miðana en erlendi aðilinn mætti á embættistökuna með Patten. Ekki maðurinn sem keypti miðana.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.