Skoðun

Áfram Færeyjar

Benedikt Bóas skrifar
Á laugardaginn klukkan 20.00 verður flautað til leiks í bikarúrslitaleik HB og B36 í Færeyjum. Heiðursgestur verður krónprinsinn í Danmörku. Uppselt er á leikinn en Þjóðarleikvangurinn tekur 3.500 manns í sæti. Gríðarleg eftirspurn var eftir miðum enda liðin tvö af þeim stærstu í Færeyjum.

Ég hef verið á landsleik í Færeyjum. Það er geggjað gaman. Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það er seldur bjór og stuðið á vellinum var ótrúlega skemmtilegt. Bæði fyrir og eftir leik. Umgjörðin var rúmlega þúsund sinnum skemmtilegri en í Laugardal. Þar er selt popp og kók en áfengi fyrir VIP-gesti.

Ég efast ekki um að sama stemning verði á laugardaginn. Leikurinn verður leikinn undir dásamlegum flóðljósum en þannig verða sjónvarpsleikir alltaf skemmtilegri. Allir leikir eru einhvern veginn fallegri í flóðljósum.

Á Íslandi er ekki horft til Færeyja um hvernig eigi að gera hlutina. Nei, það er horft til einhvers annars lands sem ég kann ekki deili á. Bikarúrslitaleikurinn í ár verður klukkan 16 af einhverjum furðulegum ástæðum og bjór verður ekki seldur á vellinum. Blikar hafa þess vegna leigt svokallað púbbtjald Þróttar, sem er við hliðina á vellinum, til að bjóða sínum stuðningsmönnum upp á bjór og með því.

Persónulega hef ég aldrei skilið af hverju við Íslendingar horfum ekki meira til Færeyja sem er frábær eyja og geggjað skemmtilegt fólk með hrikalega góðan bjór, hvort sem hann er á vellinum eða ekki.

Ég held að KSÍ ætti að skella sér á laugardaginn og sjá Heimi Guðjónsson og félaga í HB og læra hvernig eigi að halda bikarúrslitaleik. Því það verða nánast pottþétt fleiri á þeim leik en á bikarúrslitaleiknum hér heima.




Skoðun

Sjá meira


×