Körfubolti

Stjarnan bætir við sig einum besta Kana síðasta tímabils

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Anthony Jones fer úr rauðu í blátt.
Paul Anthony Jones fer úr rauðu í blátt. Vísir/Bára

Stjörnumenn ætla heldur betur að bæta upp fyrir vonbrigðin á síðasta tímabili í Domino´s-deild karla og halda áfram að styrkja liðið fyrir átökin í vetur.

Garðabæjarliðið tilkynnti það í morgun að það er búið að semja við Bandaríkjamanninn Paul Anthony Jones III sem spilaði með Haukum á síðustu leiktíð og var einn besti leikmaður deildarinnar.

Jones skoraði 18,2 stig að meðaltali í leik í 30 leikjum í deild og úrslitakeppni auk þess sem að hann gaf 7,3 fráköst og gaf tvær stoðsendingar á leið Hauka í undanúrslitin þar sem að liðið tapaði fyrir Íslandsmeisturum KR.

Jones er þriðja stóra viðbótin við lið Stjörnunnar fyrir veturinn en áður var liðið búið að fá landsliðsleikstjórnandann Ægi Þór Steinarsson frá Spáni og finnska landsliðsbakvörðinn Anti Kanervo.

Stjarnan fékk vissulega fjórða stóra bitann í Degi Kár Jónssyni en hann náði aldrei að fullkomna endurkomu sína á parketið í Garðabænum þar sem að hann fór út í atvinnumennsku til Austurríkis.

Arnar Guðjónsson, nýr þjálfari Stjörnunnar, er búinn að setja saman mjög öflugt lið sem er til alls líklegt í vetur með Ægi Þór, Kanervo, Jones, Collin Pryor (sem er orðinn íslenskur ríkisborgari) og Hlyn Bæringsson sem líklegt byrjunarlið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.