Golf

Woods rétt slapp í gegnum niðurskurðinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tiger Woods
Tiger Woods Vísir/Getty

Brooks Koepka hefur verið einn besti kylfingur ársins og vann tvö af fjórum risamótum sumarsins. Hann er jafn í forystu á fyrsta móti úrslitakeppninnar um FedEx bikarinn á PGA mótaröðinni.

Koepka vann Opna bandaríska risamótið og PGA meistaramótið í sumar. Hann fór annan hring á Northern Trust mótinu á 65 höggum í gær, sem er sex undir pari og er Koepka því á tíu höggum undir pari í mótinu, líkt og Jamie Lovemark.

Northern Trust mótið er fyrsta mótið af fjórum í úrslitakeppninni um FedEx bikarinn. 125 stigahæstu kylfingarnir til þessa á PGA mótaröðinni fengu þáttökurétt á mótinu. Á næsta mót komast 100 stigahæstu kylfingarnir, svo verður skorið niður í 70 og á lokamótinu fá aðeins 30 stigahæstu kylfingarnir þáttökurétt.


Tiger Woods rétt slapp í gegnum niðurskurðinn á mótinu, hann er á pari vallarins eftir að hafa verið í vandræðum með púttin í gær. Niðurskurðarlínan var við eitt högg yfir par.

Woods var í 20. sæti FedEx stigalistans áður en mótið hófst og því ætti hann að vera öruggur um að lenda á meðal 100 efstu og ná inn á næsta mót í úrslitakeppninni, sama hvað hann gerir um helgina.

Adam Scott frá Ástralíu átti besta hring gærdagsins, hann fór á 64 höggum eða sjö höggum undir pari. Glæsileg spilamennska hans skilaði honum á níu högg undir pari, einu höggi frá Koepka og Lovemark í fyrsta sætinu.

Bein útsending frá þriðja keppnisdegi hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.