Golf

Slæmur endasprettur hjá Ólafíu á þriðja hringnum

Ísak Jasonarson skrifar
Ólafía Þórunn.
Ólafía Þórunn. Vísir/Getty


Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag þriðja hringinn á CP Classic mótinu á LPGA mótaröðinni á þremur höggum yfir pari. Við það fór hún niður um 20 sæti og situr nú í 63. sæti fyrir lokahringinn í mótinu.
 
Ólafía Þórunn hóf leik á 10. teig í dag og lék fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari eftir tvo skolla og einn fugl.
 
Hún byrjaði svo vel á seinni níu og þegar hún fékk fugl á 3. holu var hún komin aftur á parið. Þá tók hins vegar við slæmur kafli þar sem hún fékk þrjá skolla á fjórum holum og kláraði Ólafía að lokum hringinn á 3 höggum yfir pari.
 
Þegar fréttin er skrifuð er Ólafía jöfn í 63. sæti á parinu í heildina en hún hóf daginn í 43. sæti. Hún þarf að leika vel á lokahringnum sem fer fram á morgun, sunnudag, ætli hún sér að koma sér upp stigalistann en hún sat í 137. sæti listans fyrir mótið. 100 efstu í árslok halda þátttökurétti sínum á mótaröðinni.


Efstu kylfingarnir eru nú komnir á seinni níu holurnar á þriðja hring og er það Brooke M. Henderson sem er þessa stundina í efsta sæti á 15 höggum undir pari. 
 


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.