Innlent

Lægð setur svip á veðrið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rigning og vindur í kortunum, ótrúlegt en satt.
Rigning og vindur í kortunum, ótrúlegt en satt. VÍSIR/ERNIR

Það mun hvessa og rigna í dag ef marka má spákort Veðurstofunnar, enda er 987 mb lægð nú stödd um 700 km suðvestur af Reykjanesi. Hún mun koma til með að stýra veðrinu á landinu í dag og á morgun.

Ætla má að það gangi í suðaustan 10 til 15 m/s um landið sunnan- og vestanvert fyrir hádegi. Þar mun jafnframt fara að rigna. Síðdegis og í kvöld hvessir enn frekar með suðurströndinni, einkum undir Eyjafjöllum og á sunnanverðu hálendinu, en Veðurstofan er ennþá með gula viðvörun í gildi fyrir Miðhálendið.

Á þessum slóðum mun svo bæta í rigningu og má búast við talsverðri eða jafnvel mikilli rigningu á köflum um tíma í kvöld og nótt. Norðan- og austanlands verður hinsvegar hæg suðlæg átt og léttskýjað í dag, en strekkings austanátt og rigning eða skúrir þar í nótt.

Það má svo búast við norðaustanátt á morgun, víða 8 til 13 m/s en þó er útlit fyrir hæga breyilega átt sunnanlands og að það lægi einnig austantil annað kvöld.

Jafnframt verður rigning eða skúrir í flestum landshlutum, en úrkomulítið sunnantil annað kvöld. Hitinn verður á bilinu 8 til 13 stig en 2 til 6 stig inn til landsins í nótt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Norðaustan 8-15 m/s norðvestanlands og með norðurströndinni en breytileg átt 3-8 annars staðar. Rigning eða skúrir um landið norðan- og austanvert, en úrkomulítið sunnantil. Hiti 7 til 12 stig að deginum.

Á miðvikudag:
Norðvestan 8-13 og súld eða rigning norðan- og austanlands en heldur hægari norðlæg átt og bjart með köflum sunnantil. Hægari vindur og léttir til norðvestanlands um kvöldið. Hiti 4 til 13 stig, hlýjast syðst.

Á fimmtudag:
Gengur í sunnan 10-15 m/s með rigningu eða súld um vestanvert landið, en hægari vindur og úrkomulítið austantil. Hiti 7 til 13 stig.

Á föstudag:
Sunnanátt og rigning eða súld sunnan- og vestanlands, en bjart með köflum og yfirleitt þurrt norðan- og norðaustantil. Hiti 9 til 14 stig.

Á laugardag:
Suðvestanátt og skúrir á sunnan- og vestanverðu landinu en léttskýjað annars staðar. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga suðvestanátt og skúrir sunnan- og vestanlands en bjartviðri norðaustantil. Hiti 8 til 13 stig að deginum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.