Innlent

Lægð á lægð ofan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það verður stutt á milli lægðanna í vikunni.
Það verður stutt á milli lægðanna í vikunni. vísir/hanna

Lægðin sem stýrði veðrinu á landinu í gær  mun áfram gera það í dag. Að sögn Veðurfræðings hjá Veðurstofunni eru samskilin ennþá að fara yfir landið og mun því rigna um norðanvert landið en sunnan þeirra er skýjað með köflum og stöku skúrir.

Lægðin er á austurleið og snýst því í norðanátt með deginum, fyrst vestast á landinu. Norðanáttin mun svo halda sér á morgun og verður því áfram vætusamt norðantil á landinu. Það birtir að sama skapi enn frekar til syðra.

Hitinn verður á bilinu 6 til 13 stig í dag en búast má við því að það kólni fyrir norðan.

Annað kvöld lægir um land allt og léttir einnig til norðanlands. Einnig er útlit fyrir vægt næturfrosti víða aðfaranótt fimmtudags. Næsta lægð tekur svo við keflinu á fimmtudag þegar að það hvessir úr suðri með rigningu og hlýnandi veðri, fyrst vestantil en það verður þó úrkomulítið norðaustantil fram á föstudag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðvestan 8-13 m/s og súld eða rigning norðan- og austanlands, en bjartviðri um landið sunnanvert. Lægir og styttir upp norðvestanti um kvöldið. Hiti 4 til 14 stig að deginum, hlýjast suðaustanlands.

Á fimmtudag:
Gengur í sunnan hvassviðri eða storm með rigningu, fyrst vestantil. Hægari vindur og lengst af þurrt norðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 12 stig, en að 17 stigum norðaustantil.

Á föstudag:
Hvöss sunnanátt framan af degi og rigning, talsverð um sunnanvert landið. Hægari suðvestanátt og skúrir síðdegis, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðaustantil.

Á laugardag:
Suðvestan átt og rigning eða skúrir sunnan- og vestanlands en bjart með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 12 stig.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðlæga eða breytilega átt með skúrum í flestum landshlutum, en líkur á slydduéljum norðvestantil. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á mánudag:
Hæg vestlæg átt og dálítil væta norðantil en bjart með köflum um sunnanvert landið. Hiti 7 til 12 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.