Erlent

Tengja loftmengun við greindarskerðingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kínverskar stórborgir eins og Beijing eru á meðal mest menguðu borga jarðar.
Kínverskar stórborgir eins og Beijing eru á meðal mest menguðu borga jarðar. Vísir/EPA
Vísindamenn í Kína og Bandaríkjunum leiða að því líkum að viðvarandi loftmengun geti skert greind fólks í nýrri rannsókn. Þeir telja að skaðleg áhrif mengunarinnar aukist með aldri og komi verst niður á lítið menntuðum karlmönnum.

Rannsókn vísindamannanna beindist að stærðfræði- og málhæfni um 20.000 Kínverja og styrk svifryks þar sem þeir bjuggu. Í ljós kom að þeir sem bjuggu við meiri loftmengun stóðu sig verr á prófunum. Ekki var þó sýnt fram á orsakasamband í rannsókninni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að um sjö milljónir manna látist fyrir aldur fram af völdum loftmengunar í heiminum á hverju ári. Níu af hverjum tíu jarðarbúum andi að sér menguðu lofti.

Eldri og verr menntaðir karlar eru taldir í sérstakri hættu á að verða fyrir skaðlegum áhrifum loftmengunar þar sem þeir vinna frekar utandyra en aðrir hópar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×