Lífið

Uppgjör við erfiða reynslu

Benedikt Bóas skrifar
Stefán heima í sinni Mývatnssveit. Hann heldur tvenna útgáfutónleika. Aðra á Græna hattinum á Akureyri þann 8. september og hina í Bæjarbíói þann 14. Þrjú lög eru komin í spilun af komandi sólóplötu hans, það nýjasta er Spegilbrot.
Stefán heima í sinni Mývatnssveit. Hann heldur tvenna útgáfutónleika. Aðra á Græna hattinum á Akureyri þann 8. september og hina í Bæjarbíói þann 14. Þrjú lög eru komin í spilun af komandi sólóplötu hans, það nýjasta er Spegilbrot.
„Textinn byrjar þegar ég sá hann. Ég var bara 19 ára og varð að hlaupa smá spotta því mér fannst ég hafa séð eitthvað. Ég var aleinn þegar ég fann hann og ég hef ekki hugmynd um hvað ég var lengi einn með honum. Kannski eina mínútu og kannski hálftíma. Ég bara veit það ekki. En þetta virkaði sem heil eilífð,“ segir Stefán Jakobsson en lagið Vatnið má finna á fyrstu sólóplötu hans sem kemur í búðir innan skamms.

Þar gerir Stefán upp þá erfiðu reynslu þegar hann gekk fram á fyrrverandi samstarfsfélaga í Kísiliðjunni í Mývatnssveit látinn í fjöruborði vatnsins. Sigurgeir Stefánsson hafði farið ásamt tveimur öðrum mönnum að leggja ljósleiðara en afar slæmt veður var á þessum tíma. Allir mennirnir fórust. Sigurgeir átti stærsta safn uppstoppaðra fugla á Íslandi og ættingjar og vinir reistu fuglasafnið í Mývatnssveit í hans minningu. „Þetta er uppgjör við vatnið en ekki við slysið sem slíkt. Það eru ekki til nein svör við svona harmleik og því miður þá gerðist þetta.“

Sjálfur Magnús Þór Sigmundsson hjálpaði Stefáni við aðra texta og þá á hagyrðingurinn frábæri Friðrik Steingrímsson einnig einn. „Magnús á nokkra texta aleinn en það var alltaf samstarf. Hann er búinn að kenna mér fullt í textagerð og ég er búinn að læra mikið af að hafa hann við hlið mér. Hann hefur gefið mér sjálfstraust því oft eru þetta tilfinningar sem eru óþægilegar og mann skorti sjálfstraust til að láta vaða en hann hikar hvergi. Hann er alveg stórkostlegur maður,“ segir Stefán.

Tíu lög verða á plötunni og eru þrjú komin í spilun. Það nýjasta, Spegilbrot, segir Stefán að sé klassískt grunge-lag en Hallveig Rúnarsdóttir syngur sópran og Hulda Björk Garðarsdóttir mezzosópran. „Það var ekki nóg að hafa bara eina,“ segir hann og hlær.

Stefán hefur verið söngvari í Dimmu en nú stendur hann einn. „Ég fæ á baukinn ef þetta gengur ekki en fæ hrósið ef þetta gengur. Maður stendur svolítið og fellur með þessu hvernig sem þetta fer. Það er samt alveg rosaleg tilhlökkun að spila þetta fyrir fólk. Þeir sem þekkja mig verða ekki rosa hissa en hinn almenni hlustandi verður hugsi yfir þessu.“

Miða á útgáfutónleika Stefáns má nálgast hér








Fleiri fréttir

Sjá meira


×