Erlent

Kepptust við að lýsa yfir andúð sinni á Trump

Sylvía Hall skrifar
Cuomo og Nixon fyrir kappræðurnar.
Cuomo og Nixon fyrir kappræðurnar. Vísir/Getty
Frambjóðendur Demókrataflokssins til embættis ríkisstjóra í New York, leikkonan Cynthia Nixon og Andrew Cuomo núverandi ríkisstjóri, mætast í kvöld í sínum fyrstu og einu kappræðum fyrir forvalið sem fer fram þann 13. september næstkomandi.

Nixon, sem gerði garðinn frægan í hinum vinsælu þáttum „Sex and the City“, tilkynnti framboð sitt í mars en þetta er í fyrsta sinn sem hún býður sig fram. Andrew Cuomo sækist einnig eftir tilnefningu Demókrataflokksins, en hann klárar nú sitt annað kjörtímabil sem ríkisstjóri. Þá hefur hann verið orðaður við forsetaframboð árið 2020, en hann hefur hafnað þeim sögusögnum.

Í kappræðunum, sem nú fara fram, hafa frambjóðendurnir keppst við að lýsa yfir andúð sinni á Donald Trump Bandaríkjaforseta, og sagði Cuomo hann vera ógn við íbúa.

„Enginn hefur staðið upp í hárinu á Donald Trump eins og ég hef,“ sagði Cuomo við litlar undirtektir mótframbjóðanda síns.

„Þú hefur staðið upp í hárinu á honum jafn vel og hann hefur staðið upp í hárinu á Putin,“ sagði leikkonan og gerði lítið úr yfirlýsingum ríkisstjórans.

Mikil spenna var á milli frambjóðendanna og mátti heyra það á samskiptum þeirra. Þá sagði Cuomo Nixon búa í skáldsöguheimi, og ýjaði þannig að leiklistarferli hennar. 

Þegar tvær vikur eru til kosninga leiðir Cuomo með rúmlega 30 prósentustigum í könnunum og þykir líklegur til þess að tryggja sér tilnefningu flokksins.


Tengdar fréttir

Nixon býður sig mögulega fram til ríkisstjóra

Úr öllum áttum er þrýst á leikkonuna Cynthiu Nixon að gefa kost á sér til ríkisstjóra New York-fylkis í Bandaríkjunum. Leikkonan hefur um þó nokkra hríð haft sterkar pólitískar skoðanir og gert sig gildandi í umræðunni um menntamál.

Sex and the City-leikkona fer í framboð

Bandaríska leikkonan, Cynthia Nixon, sem þekktust er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Sex and the City tilkynnti í dag að hún bjóði sig fram í forvali Demókrataflokksins til ríkisstjóra New York-fylkis í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×