Fótbolti

Sjáðu sturlaða tæklingu og stoðsendingu Wayne Rooney

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Wayne Rooney
Wayne Rooney vísir/getty

Enska knattspyrnugoðsögnin Wayne Rooney er byrjaður að heilla Bandaríkjamenn en hann gekk til liðs við MLS deildarliðið DC United í sumar þegar hann var látinn fara frá Everton.

Rooney hjálpaði liði sínu heldur betur á lokamínútunum þegar liðið vann dramatískan 3-2 sigur á Orlando City í nótt.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks lagði Rooney upp fyrsta mark leiksins þegar Luciano Acosta kom DC yfir. Þegar komið var í uppbótartíma venjulegs leiktíma var staðan hins vegar orðin 2-2 og DC einum manni fleiri.

Þá fengu þeir hornspyrnu og einhverra hluta vegna ákvað markvörður liðsins að bregða sér í sóknina. Hornspyrnan misheppnaðist og Orlando menn geystust í skyndisókn og freistuðu þess að skora í autt mark DC.

Rooney var ekki á sama máli og sýndi mikla vinnusemi þegar hann hljóp uppi sóknarmann Orlando, vann tæklingu og þrumaði boltanum í kjölfarið inn í vítateiginn, beint á kollinn á áðurnefndum Acosta sem skallaði boltann í netið, fullkomnaði þrennu sína og tryggði DC dramatískan sigur.

Sjón er sögu ríkari og má sjá hetjudáð Rooney hér að neðan auk ítarlegrar greiningar ESPN sjónvarpsstöðvarinnar á þessu atviki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.