Körfubolti

Tveir evrópskir leikmenn komnir til Grindavíkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Grikkinn Michalis Liapis
Grikkinn Michalis Liapis mynd/grindavík
Grindavík hefur fengið tvo evrópska leikmenn til liðs við sig fyrir komandi tímabil í Domino's deild karla. Um er að ræða grískan bakvörð og ungan Hollending.

Bakvörðurinn Michalis Liapis er fæddur árið 1995. Hann fór í gegnum unglingastarf PAOK og hefur spilað fyrir yngri landslið Grikkja. Hann samdi við rúmenskt félag á síðasta ári en þurfti að stytta dvöl sína þar vegna meiðsla.

Hollendingurinn Jordy Kuiper er einnig fæddur 1995. Hann er 206 cm á hæð og fá Grindvíkingar hann til sín til þess að styrkja liðið undir körfunni.

Kuiper er að koma beint úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum þar sem hann útskrifaðist frá NC Greensboro í vor.

Grindavík endaði í sjötta sæti Domino's deildarinnar á síðasta tímabili en var sópað í sumarfrí af Tindastóli í 8-liða úrslitunum. Grindvíkingar hafa misst marga lykilmenn í sumar en fengu liðsstyrk í Sigtryggi Arnari Björnssyni, einum besta leikmanni deildarinnar síðasta vetur.

Grindvíkingar hefja leik á nýju tímabili gegn nýliðum Breiðabliks á heimavelli 4. október.

Hollendingurinn Jordy Kuipermynd/grindavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×