Körfubolti

Sex milljón dollara fjárfesting Kobe Bryant nú þrjátíu sinnum meira virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant með Óskarinn sinn.
Kobe Bryant með Óskarinn sinn. Vísir/Getty

Hann er fimmfaldur NBA-meistari, milljarðamæringur og Óskarsverðlaunahafi. Kobe Bryant er ekki aðeins það heldur er núna einnig hægt að fara kalla hann viðskiptasnilling.

Sex milljón dollara fjárfesting Kobe Bryant fyrir rúmum fjórum árum hefur þrjátíufaldast á þessum tíma og skilað körfuboltagoðsögninni 200 milljónum dollara.

Kobe Bryant fjárfesti á sínum tíma í íþróttadrykknum BodyArmor en hann keypti tíu prósent í fyrirtækinu fyrir sex milljónir dollara. Þá var fyrirtækið að selja vörur fyrir tíu milljón dollara á ári en nú seljast BodyArmor drykkir fyrir 400 milljón dollara á ári hverju.

Bryant hafði mikla trú á BodyArmor drykknum og það var greinilega ekki af ástæðulausu. Coca-Cola hefur nú keypt hlut í fyrirtækinu og ESPN hefur eftir heimildarmanni sínum að samkvæmt því kaupverði er hlutur Kobe Bryant nú metinn á 200 milljón dollara.Kobe Bryant fjárfesti líka í heimildarmyndinni „Dear Basketball“ í mars 2014 og sú mynd skilaði honum Óskarsverðlaunum. Ekki slæmur viðskiptamánuður fyrir kappann.

Kobe er ekki eini íþróttamaðurinn sem hefur fjárfest í BodyArmor því það hafa einnig gert þeir James Harden, Dustin Johnson og Andrew Luck.

Kobe Bryant lék í tuttugu ár í NBA-deildinni og fékk fyrir það 328 milljónir dollara. Hann fékk líka svipað mikið í aukatekjur á farsælum ferli sínum.  Hann hefur síðan farið að reyna fyrir sér í viðskiptalífinu.

Kobe Bryant stofnaði fjárfestingafélagið Kobe Inc. eftir að körfuboltaskórnir fóru upp á hillu og sigurganga hans innan vallar ætlar greinilega að halda áfram utan vallar.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.