Umfjöllun: Stjarnan - Breiðablik 1-2 │Breiðablik bikarmeistari

Einar Sigurvinsson á Laugardalsvelli skrifar
Blikarnir fagna í kvöld.
Blikarnir fagna í kvöld. vísir/vilhelm

Breiðablik er bikarmeistari eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram á Laugardalsvelli og lauk með 2-1 sigri Blika.

Fyrstu mínútur leiksins einkenndust af baráttu þar sem mikið jafnræði var með liðinum. Það var strax 6. mínútu leiksins sem litlu mátti muna að Stjarnan tæki forystuna þegar Telma Hjaltalín Þrastardóttir slapp ein í gegn á móti markverði. Sonný Lára lokaði þá markinu vel og varði frá Telmu.

Blikar komust yfir á 19. mínútu. Boltinn barst þá til Öglu Maríu Albertsdóttur á vinstri kantinum, en litlu mátti muna að Maríu Evu tækist að hreinsa hann í burtu.

Agla María hljóp með boltann að teig Stjörnunnar og kom boltanum á Berglindi Björg sem skoraði af öryggi. Hennar 17 mark í jafn mörgum leikjum í sumar.

Þegar um tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks komst Breiðablik 2-0 yfir. Megan Dunnigan braut þá á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur, fékk hún að líta gult spjald fyrir vikið og Blikar aukaspyrnu á hættulegum stað.

Guðrún stangar hann í netið í kvöld. vísir/vilhelm

Agla María tók aukaspyrnuna og kom boltanum beint á kollinn á Guðrúnu Arnardóttur sem skallaði hann í netið. Önnur stoðsending Öglu í leiknum, en hún spilaði mjög vel  gegn sínum gömlu félögum í dag.

Staðan í hálfleik 2-0 fyrir Breiðablik og ljóst að róðurinn fyrir Stjörnuna yrði þungur í síðari hálfleik.

Þegar um 20 mínútur höfðu verið spilaðar af síðari hálfleik meiddist einn besti leikmaður Stjörnunnar, Harpa Þorsteinsdóttir, en hún hrökk niður án snertingar og hélt um hné sér. Bera þurfti Hörpu af velli og var það einungis til að bæta í mótvind Stjörnunnar.

Stjarnan náði þó að klóra í bakkann á 87. mínútu. Það gerði Telma Hjaltalín Þrastardóttir. Hún fékk boltann á miðjum vellinn, rauk upp í átt að teig Breiðabliks og tók skot af um 25 metra færi, yfir Sonný Láru í markinu.

Við markið kom aukinn kraftur í leikinn en fleiru urðu mörkin ekki. Niðurstaðan því að lokum 2-1 sigur Breiðabliks fagnar sínum 12 bikarmeistaratitli.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.