Innlent

Borgaryfirvöld ráðast í aðgerðir vegna vanda heimilislauss fólks

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Á aukafundi borgarráðs Reykjavíkur sem var haldinn var í gær að beiðni minnihlutaflokka.
Á aukafundi borgarráðs Reykjavíkur sem var haldinn var í gær að beiðni minnihlutaflokka. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Tillögur um húsnæðismál fólks sem telst utangarðs voru samþykktar í gærmorgun á aukafundi borgarráðs sem minnihluti ráðsins óskaði eftir. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands segir miður að ekki hafi verið samþykkt neyðar­úrræði sem taka á brýnasta vandanum án tafar.

Alls samþykkti borgarráð átta tillögur meirihluta um aðgerðir í húsnæðismálum og eina frá áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Flestum tillögum minnihlutans var hins vegar vísað til frekari skoðunar hjá velferðarráði og fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Samþykkt var að útvega fimm lóðir fyrir allt að 25 smáhýsi á þessu ári, bæta þjónustu í samstarfi við ríkið um heilbrigðisþjónustu utangarðsfólks og að velferðarsvið ljúki tillögugerð um áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis fyrir fólk sem telst utangarðs.

Einnig var samþykkt að fara í viðræður við ríkisvaldið og verkalýðshreyfinguna um breytingar á reglum um stofnframlög og áskorun til ráðherra húsnæðismála um að sveitarfélögum verði gert skylt að fjölga félagslegum íbúðum að ákveðnu hlutfalli við íbúafjölda.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista. Fréttablaðið/Stefán

Auk þess verði teknar upp viðræður við önnur sveitarfélög um þátttöku í kostnaði við úrræði sem íbúar viðkomandi sveitarfélaga nýta sér en borgin ber „hitann og þungann“ af, eins og orðað er í tilkynningu Reykjavíkurborgar um fundinn.

Þá var samþykkt tillaga Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands á fundinum, um að kanna væntingar og þarfir einstaklinga í húsnæðisvanda. Sanna telur þó að gera hefði mátt betur og segist óánægð með að mörgum tillögum hafi verið vísað inn í ráð. Hún nefnir tillögu sína um neyðarhúsnæði sem var vísað í velferðarráð sem tekur ekki aftur til starfa fyrr en 10. ágúst.

„Með því að vísa neyðarúrræðum í ráð erum við ekki að taka á þessum brýna vanda eins fljótt og unnt er. Þó að langtímalausnir séu mikilvægar þurfum við samt sem áður neyðarúrræði sem heimilislaust fólk getur gripið til,“ segir Sanna. Hún segir gott að vinna sé hafin í málaflokknum en veltir fyrir sér hvernig meirihlutinn hafi leyft stöðunni að verða eins og hún er.

„Þetta er ekki eitthvað sem á að sitja á hakanum. Maður skynjaði á málflutningi meirihlutans að hann vildi ekki axla ábyrgð með því að vísa í að ríki og önnur sveitarfélög þurfi einnig að koma að málinu. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á þessari stöðu og við þurfum strax lausnir fyrir einstaklinga í neyð.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.