Innlent

Ásthildur segist komin í draumastarfið sem bæjarstjóri á Akureyri

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Ásthildur Sturludóttir hefur verið ráðin bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir hefur verið ráðin bæjarstjóri á Akureyri. AKUREYRARBÆR

„Þetta starf leggst mjög vel í mig. Við erum mjög spennt fyrir því að gera Akureyri að okkar heimabæ og ala börnin okkar upp hérna,“ segir Ásthildur Sturludóttir sem hefur verið ráðin bæjarstjóri á Akureyri.

Að sögn Ásthildar gerir hún ráð fyrir því að hefja störf um miðjan september og að fram undan sé leit að húsnæði fyrir fjölskylduna á nýjum stað.

Ásthildur var bæjarstjóri í Vesturbyggð frá 2010 og þar til í vor. Hún er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York.

Þá var Ásthildur um tíma framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

„Viðræður gengu hratt og vel fyrir sig og við erum búin að ræða öll stóru málin.“ Ásthildur segir að hún hafi náð að setja sig lítillega inn í málefni bæjarins. Hún segist vera spennt fyrir því að koma inn sem faglega ráðinn bæjarstjóri og segist geta unnið með fólki úr öllum flokkum.

„Þetta var í rauninni draumastarfið. Það var annaðhvort þetta eða að fara inn á einhvern annan vettvang.“
Meirihluti L-lista, Samfylkingar og Framsóknarflokks hélt velli í sveitarstjórnarkosningunum í vor og var ákveðið að endurnýja meirihlutasamstarfið.

Ákveðið var að auglýsa starf bæjarstjóra en Eiríkur Björn Björgvinsson, sem gegnt hefur starfi bæjarstjóra síðustu átta ár, ákvað í ársbyrjun að sækjast ekki eftir áframhaldandi ráðningu.

Alls sóttu átján einstaklingar um starf bæjarstjóra en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.