Innlent

Boðar lausnir á vandamálum heimilislausra

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Flokkur fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur hyggst leggja fram tvær tillögur að lausn á vanda heimilislausra í borginni á fundi borgarráðs næstkomandi fimmtudag.

Boðað var til fundarins að ósk minnihlutans sem sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu í síðustu viku þar sem sagði að grípa þyrfti til neyðarúrræða í málefnum heimilislausra.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir aðra tillögu flokksins ganga út á hjólhýsa- og húsbílabyggð. Hin snúi að því að borgin breyti húsnæði sem ekki sé í notkun í íbúðir og leigi út ódýrt.

Á síðasta fundi borgarráðs lagði Kolbrún fram bókun þar sem fram kom að heimilislausir hafi verið afgangsstærð hjá borginni árum saman. Þar var bent á að heimilislausir væru fjölbreyttur hópur.

Nauðsynlegt væri að fjölga smáhýsum sem úrræði fyrir útigangsfólk en jafnframt þurfi að huga að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk.

Ófremdarástand ríkti í þeim málaflokki enda félagslega íbúðakerfið í molum og biðlistar langir.

Þá lagði Kolbrún á sama fundi fram tillögu þess efnis að skoðað væri fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi, sambærileg þeim sem flutt voru inn fyrir starfsmenn Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal.

Fram kemur að 50 fermetra timburhús kosti fullbúið um 16 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Verði að taka á vanda utangarðsfólks

Minnihlutinn í borginni boðar neyðarfund hjá borgarráði vegna úrræðaleysis Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra. Formaður borgarráðs vill ganga í verkið og samþykkti að halda fundinn í næstu viku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.