Innlent

Boðar lausnir á vandamálum heimilislausra

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Flokkur fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur hyggst leggja fram tvær tillögur að lausn á vanda heimilislausra í borginni á fundi borgarráðs næstkomandi fimmtudag.

Boðað var til fundarins að ósk minnihlutans sem sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu í síðustu viku þar sem sagði að grípa þyrfti til neyðarúrræða í málefnum heimilislausra.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir aðra tillögu flokksins ganga út á hjólhýsa- og húsbílabyggð. Hin snúi að því að borgin breyti húsnæði sem ekki sé í notkun í íbúðir og leigi út ódýrt.

Á síðasta fundi borgarráðs lagði Kolbrún fram bókun þar sem fram kom að heimilislausir hafi verið afgangsstærð hjá borginni árum saman. Þar var bent á að heimilislausir væru fjölbreyttur hópur.

Nauðsynlegt væri að fjölga smáhýsum sem úrræði fyrir útigangsfólk en jafnframt þurfi að huga að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk.

Ófremdarástand ríkti í þeim málaflokki enda félagslega íbúðakerfið í molum og biðlistar langir.

Þá lagði Kolbrún á sama fundi fram tillögu þess efnis að skoðað væri fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi, sambærileg þeim sem flutt voru inn fyrir starfsmenn Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal.

Fram kemur að 50 fermetra timburhús kosti fullbúið um 16 milljónir króna.




Tengdar fréttir

Verði að taka á vanda utangarðsfólks

Minnihlutinn í borginni boðar neyðarfund hjá borgarráði vegna úrræðaleysis Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra. Formaður borgarráðs vill ganga í verkið og samþykkti að halda fundinn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×