Sport

Katrín Tanja nældi í brons á heimsleikunum

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Mögnuð.
Mögnuð. Vísir/skjáskot

Katrín Tanja Davíðsdóttir gerði sér lítið fyrir og nældi sér í brons á heimsleikunum í Crossfit sem kláruðust í Madison í kvöld.

Fyrir lokagreinina sem fór fram í kvöld var Katrín Tanja í þriðja sætinu en hún var sex stigum á undan Kara Saunders sem var í fjórða sætinu. Rúm 50 stig voru í annað sætið.

Spennan var afar mikil og að endingu kláraði Katrín þriðja í sínum undanriðli. Það skilaði henni nægilega mörgum stigum til að tryggja henni bronsið.

Hún endaði í þriðja sætinu, rúmum 130 stigum á eftir Tia-Clair Toomey sem vann annað árið í röð.

Anníe Mist Þórisdóttir var í fimmta sætinu fyrir lokagreinina en hún var rúmum hundrað stigum á eftir Katrínu. Anníe kláraði sjötta í sínum undanriðli og endaði í 5. sæti á heildarlistanum.

Oddrún Eik Gylfadóttir endaði í 26. sætinu eftir að hafa verið í 25. sætinu fyrir lokagreinina. Þetta var í fyrsta skipti sem Oddrún keppir í einstaklingsflokki en áður hafði hún keppt í liðakeppni.

Björgvin Karl Guðmundsson var í fimmta sætinu fyrir lokagreinina í karlaflokki og átti góðan möguleika á að skjóta sér upp í verðlaunasæti með góðum árangri í síðustu greininni.

Hann endaði tólfti í öllum undanriðlunum sem dugði ekki til að klifra upp töfluna. Hann endaði því í fimmta sætinu á heildarlistanum.

Sigurvegarinn í karlaflokki var Mathew Fraser en hann vann með nokkrum yfirburðum. Stórkostlegur íþróttamaður.

Hér fyrir neðan má lesa textalýsingu blaðamanns Vísis sem fylgdist með nýjustu vendingum á leikunum.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.