Umfjöllun: Lahti - FH 0-3 | FH í frábærum málum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lennon skoraði frábært mark í kvöld.
Lennon skoraði frábært mark í kvöld. vísir/stefán

FH er í góðri stöðu fyrir síðari leikinn gegn FC Lahti í Evrópudeildinni en FH vann 3-0 útisigur í Finnlandi í dag. Leikur FH var afar góður.

Fyrir leikinn var búist við hörkurimmu en FH byrjaði af miklum krafti. Það var strax á þriðju mínútu er þeir komust yfir með marki Halldórs Orra Björnssonar eftir frábæran undirbúning Atla Guðnasonar.

Atli og Færeyringurinn, Brandur Olsen, spiluðu laglega saman á vinstri vængnum, Atli gaf boltann fyrir markið þar sem Halldór Orri stakk sér fram fyrir varnarmann Finnana og stangaði boltann í jörðina og í netið.

Frábær byrjun FH og þeir voru ekki hættir. Fjórtán mínútum síðar tvöfaldaði Steven Lennon forystuna með stórkostlegu marki. Hann fékk boltann inn á teignum í þröngu færi en vippaði yfir markvörð Lahti og í netið. Glæsileg tilþrif og FH komið í 2-0.

Eftir það róaðist leikurinn aðeins, eðlilega, og FH var með öll tök á leiknum. Gestirnir sköpuðu sér ekki eitt opið færi og ef eitthvað var þá var Fimleikafélagið líklegra til að bæta við marki í fyrri hálfleik. 2-0 fyrir FH í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var afar rólegur. FH-liðið lá til baka og beittu öflugum skyndisóknum. Þeir fengu dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks er Atli Guðnason skaut framhjá en heimamenn sköpuðu sér engin færi.

Þriðja markið kom svo í uppbótartíma er Atli Guðnason átti enn eina frábæru sendinguna, í þetta sinn á varamanninn Robbie Crawford sem náði að koma boltanum í fjærhornið.

3-0 sigur FH sem er í góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem verður spilaður í Kaplakrika eftir viku.

Sigurliðið úr þessari rimmu mætir Hapoel Haifa frá Ísrael í næstu umferð en það þarf mikið að gerast svo FH spili ekki við Hapoel þann 26. júlí og 2. ágúst.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.