Erlent

Trump hrósar Boris John­son í há­stert en segir borgar­stjóra Lundúna hafa staðið sig mjög illa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Melania Trump, forsetafrú, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, við komuna til Bretlands í gær.
Melania Trump, forsetafrú, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, við komuna til Bretlands í gær. vísir/ap

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsir Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sem mjög hæfileikaríkum náunga sem hann virði mjög mikið. Þá segir hann að Johnson yrði frábær forsætisráðherra.

Hann segir hins vegar að Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, hafi ekki staðið sig vel í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Fjögurra daga opinber heimsókn Trump til Bretlands heldur áfram í dag en forsetinn kom til landsins í gær. Fyrrnefnd ummæli um þá Johnson og Khan lét Trump falla í viðtali við breska götublaðið The Sun en fjallað er um málið á vef Guardian.

Telur að Johnson yrði frábær forsætisráðherra

Trump tók fram að hann væri ekki að reyna að egna þeim saman, þeim Johnson og May, en eins og kunnugt er sagði Johnson af sér sem utanríkisráðherra fyrr í þessari viku vegna ágreinings innan bresku ríkisstjórnarinnar um hvaða leið skuli fara í Brexit.

„Ég er bara að segja að hann væri frábær forsætisráðherra. Ég held að hann hafi það sem til þurfi,“ sagði Trump um Johnson.

Þá bætti hann við að hann myndi gjarnan vilja hitta Johnson á meðan á heimsókn hans stæði og sagði augljóst að Johnson kynni vel við hann.

„Mér finnst mjög leiðinlegt að hann hafi yfirgefið ríkisstjórnina og ég vona að hann komi aftur á einhverjum tímapunkti. Ég held að hann sé mjög góður fulltrúi fyrir land ykkar.“

Segir Khan hafa staðið sig illa í því að berjast gegn hryðjuverkum og glæpum

Trump var ekki alveg jafn ánægður með Khan, borgarstjórann í Lundúnum.

„Ég held að hann hafi staðið sig mjög illa í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ég held að hann hafi líka staðið sig illa í að berjast gegn glæpum, ef þú bara horfir á alla þessa hræðilegu hluti sem eru í gangi hérna, og alla glæpina sem hafa verið framdir,“ sagði Trump.

Þá virtist hann einnig hafa horn í síðu Khan vegna fjölda innflytjenda sem streyma inn til Evrópu.

„Mér finnst það að hleypa fleiri fleiri milljónum innflytjenda inn til Evrópu mjög sorglegt. Ég horfi á borgir Evrópu og ég get verið nákvæmari ef þú vilt. Þið eruð með borgarstjóra sem hefur staðið sig mjög illa, mjög illa,“ sagði Trump.

Í dag mun forsetinn eiga fundi með Theresu May, forsætisráðherra, og Elísabetu II Englandsdrottningu en heimsókn Trump til Bretlands er vægast sagt umdeild og hófust mótmæli í Lundúnum strax í morgun.

Þá er talið að ýmis ummæli sem hann hefur látið falla í tilefni heimsóknarinnar, meðal annars í viðtalinu við The Sun, séu síst til þess að fallin að lægja öldurnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.